Stalín úti í tunglsljósi, Stalín út við skóg

Niðurstaða: Snilldartónleikar með stórfenglegri tónlist.

Verk eftir Sjostakóvitsj í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Stjórnandi: Eva Ollikainen.

Eldborg í Hörpu

Miðvikudaginn 18. maí

Þegar Stalín stjórnaði Sovétríkjunum með harðri hendi voru oft hvíslaðir um hann brandarar. Ekki mátti segja þá opinberlega, því það hefði líklega alvarlegar afleiðingar. Einn brandarinn var svona: Stalín heldur ræðu fyrir mikinn fjölda í Kremlin. Allt í einu heyrist einhver hnerra. Stalín: „Hver hnerraði?“ Enginn þorir að játa og allir skjálfa á beinunum. Stalín: „Þið í fyrstu röð, standið upp og farið út. Þið verðið skotin“ (Fagnaðarlæti). Stalín: „Svo, hver hnerraði?“ Þögn. Stalín: „Þið í annarri röð. Standið á fætur og farið burt. Þið verðið líka skotin.“ Mikil fagnaðarlæti, áhorfendur standa á fætur og hrópa: „Heill sé þér, mikli Stalín!“ Stalín: „Ókei, hver hnerraði?“ Maður í öftustu röð stendur skjálfandi á fætur. „Það var ég, fyrirgefðu.“ Stalín: „Ekkert mál. Guð hjálpi þér, félagi.“

Sjostakóvitsj hnerraði

Þessi fjarstæðukenndi brandari lýsir vel andrúmsloftinu í Sovétríkjunum, og ekki síst á heimili tónskáldsins Dmitrí Sjostakóvitsj. Fimmta sinfónían hans var á dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands á miðvikudagskvöldið. Sjostakóvitsj hafði hnerrað illilega þegar hann samdi óperuna Lafði Macbeth af Mtsensk. Hún gekk vel lengi en svo kom Stalín og sá hana. Nokkru síðar birtist ritstjórnargrein í málgagninu Prövdu þar sem óperan var kölluð „óreiða í stað tónlistar.“ Hún þótti klámfengin og ósiðleg; kona sem heldur fram hjá og fremur morð er þar sýnd í jákvæðu ljósi. Við slíkum hnerra var ekki hægt að segja „ekkert mál og Guð hjálpi þér, félagi.“

Hið opinbera í Sovétríkjunum stjórnaði listamönnum á beinskeyttan hátt; öll list var áróður. Listamönnum var sagt hvernig verk þeir áttu að skapa. Valdamenn Sovétríkjanna trúðu því almennt að listaverk gætu ekki verið hlutlaus pólitískt séð. Listaverk var annað hvort með eða á móti gildum byltingarinnar. Möppudýr og kerfiskarlar gátu því hafnað verkum fyrir að styðja ekki hugmyndafræðina sem lá að baki byltingunni. Þeir vildu t.d. frekar tónlist fyrir kóra og kammerhópa en einleiksverk því hin fyrrnefndu samsvöruðust betur hugmyndinni um rússneskan samvinnuanda.

Hafði alvarlegar afleiðingar

Greinin í Prövdu hafði alvarlegar afleiðingar fyrir Sjostakóvitsj. Verk hans voru tekin af dagskrá og hann beið eftir því að lögreglan myndi banka á dyrnar hjá honum einhverja nóttina og hann sendur í útlegð eða skotinn. Í þessum kringumstæðum samdi hann fimmtu sinfóníuna sína. Þar reyndi hann að búa til tónlist í anda byltingarinnar, en þó án listrænna málamiðlana. Það heppnaðist, og eftir frumflutninginn ætlaði fagnaðarlátunum aldrei að linna. Sjostakóvitsj var borgið, a.m.k. um sinn.

Verkið er mjög dramatískt, fullt af átökum og þar má greina ákveðna hæðni. Gleðin í tónlistinni er aldrei fölskvalaus. Engu að síður er hún mjög glæsileg og á tónleikunum, undir stjórn Evu Ollikainen, var túlkun hennar sérlega sannfærandi og ákaflega spennandi. Pákuleikarinn fór á kostum, hvílíkar barsmíðar, sem þó voru svo hnitmiðaðar! Hljómsveitin spilaði sem einn maður, strengirnir voru mjúkir en markvissir, blásararnir pottþéttir og slagverkið geggjað. Hvorki má heldur gleyma píanóleiknum, né selestunni, en frá henni kom áhrifamikið sóló á einum tímapunkti. Það var bæði draumkennt og dularfullt. Þetta var magnaður flutningur og frábær skemmtun.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s