Enginn dirfðist að segja nei við Stalín

Enginn dirfðist að segja nei við Stalín

Niðurstaða: Magnþrungin sinfónía og flottur píanókonsert.

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verk eftir Rakhmanínoff og Sjostakóvitsj. Einleikari: Stephen Hough. Stjórnandi: Kornilios Michailidis.

Eldborg í Hörpu

fimmtudagur 23. febrúar

Jósef Stalín hlustaði mikið á útvarp. Kvöld eitt heyrði hann píanókonsert nr. 23 eftir Mozart, og varð frá sér numinn af hrifningu. Enda var konsertinn leikinn af Maríu Yudinu, sem naut mikillar hylli í fyrrum Sovétríkjunum. Stalín hringdi því strax í útvarpsráðið, og krafðist þess að fá plötuna með þessari frægu listakonu. „Að sjálfsögðu“ var auðvitað svarið. Samt var platan ekki til, og hafði aldrei verið. Stalín hafði nefnilega heyrt beina útsendingu frá tónleikum, og voru nú góð ráð dýr. Enginn dirfðist að segja nei við Stalín, því afleiðingarnar gætu orðið hroðalegar.

Neyðarkall var því sent til Yudinu, og hljómsveitinni komið á pall á svipstundu. Upptökutækin voru sett í gang, en allt fór í vitleysu vegna þess að hljómsveitarstjórinn var svo hræddur við Stalín. Hann var sendur heim, bilaður á taugum, og annar kallaður til. En allt kom fyrir ekki, og var það loks sá þriðji sem var í nægilegu jafnvægi til þess að upptakan gæti heppnast. Þá var komin nótt, allir voru í svitabaði en samt tókst að ljúka verkinu. Platan var tilbúin um morguninn – aðeins eitt eintak. Stalín fékk hana senda strax, auðvitað í límósínu.

Umdeild endurminningabók

Í tíundu sinfóníunni eftir Sjostakóvitsj fjallar tónskáldið um ógnarstjórn Stalíns. Það er ef marka má endurminningabók tónskáldsins eftir Solomon Volkov. Sú bók er reyndar umdeild og ekki allir sannfærðir um sannleiksgildi hennar. Sagan hér að ofan er einmitt þaðan. Mér finnst þó bókin öll trúverðug; óttinn í tíundu sinfóníunni er alltént áþreyfanlegur.

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið stjórnaði Kornilios Michailidis og gerði það ágætlega. Mjög krefjandi raddir tréblásaranna voru listilega útfærðar og heildarhljómurinn í verkinu var sannfærandi. Túlkunin var spennuþrungin og stígandin í henni var markviss. Það var helst hinn hraði annar kafli sem var dálítið laus í reipunum, hann var vissulega snarpur eins og hann átti að vera, en nákvæmnin í samspilinu hefði getað verið meiri.

Tónlistarskólinn í helvíti

Hitt verkið á efnisskránni var annar píanókonsertinn eftir Rakhmanínoff. Sú goðsögn hefur gengið um konsertinn að hann hafi verið saminn í dáleiðslu. Það er orðum aukið. Rakhmaninoff missti sjálfstraustið þegar frumflutningurinn á fyrstu sinfóníunni hans misheppnaðist. Hljómsveitarstjórinn var fullur og í gagnrýni eftir tónleikana var sagt að sinfónían gæti verið verk um plágurnar sjö í Egyptalandi, eftir nemanda í tónlistarskólanum í Helvíti.

Til að komast yfir áfallið fór Rakmaninoff í tíma hjá sálfræðingnum Nikolai Dahl, sem dáleiddi hann og hjálpaði honum þannig að endurheimta sjálfstraustið. Upp úr því fór hann að semja aftur og skömmu síðar leit píanókonsertinn dagsins ljós.

Þessi vinsæli konsert hefur oft verið fluttur hér á landi og núna var komið að Stephen Hough að leika einleikinn. Spilamennskan var glæsileg, full af krafti þegar við átti. Laglínurnar voru fallega mótaðar og tæknilega séð var leikurinn tær og nákvæmur. Eina undantekningin var byrjunin á síðasta kaflanum, sem var nokkuð subbuleg. En heildarmyndin var stórbrotin og endirinn tilkomumikill, enda var einleikaranum ákaft fagnað.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s