Meistarinn lék undir hjá sjálfum sér

5 stjörnur

Djasstónleikar

John Scofield lék tónlist eftir sjálfan sig og aðra.

Salurinn í Kópavogi

sunnudaginn 17. febrúar

Ég sá nýlega viðtal við Jim Carrey þar sem hann segir frá því þegar hann var að byrja feril sinn sem uppistandari og grínleikari. Hann kvaðst mikið hafa velt því fyrir sér hvað það væri sem áhorfendur vildu, svona almennt í lífinu. Loks komst hann að þeirri niðurstöðu að þeir vildu upplifa frelsi. Hann ákvað þá að hann skyldi verða að táknmynd frelsisins. Þannig sló hann í gegn.

Mér datt þetta í hug á tónleikum í röðinni Jazz í Salnum á sunnudagskvöldið. Röðin byggist á einleikstónleikum, sem er fáheyrt í djassheiminum á Íslandi. Venjulega spila menn saman, oftast þrír eða fleiri. Á tónleikunum kom fram gítargoðsögnin John Scofield, snillingur sem hefur leikið með Miles Davis, Herbie Hancock, Pat Metheny, Eddie Palmieri og öðrum risum. Scofield var fullkomlega frjáls í leik sínum. Hann gat gert hvað sem var og ímyndunarafli hans voru engin takmörk sett. Fyrir bragðið upplifði maður allt annan veruleika um kvöldið, frjáls undan hversdagsleikanum. Það var unaðslegt.

Scofield var eigin undirleikari á tónleikunum. Hann var með pedal fyrir framan sig sem stýrði einskonar upptökutæki. Á völdum augnablikum spilaði hann einfalda hendingu eða hljómagang, sem tækið byrjaði svo að endurtaka í sífellu. Ofan á endurtekninguna úr hátölurunum lék hann af fingrum fram. Þetta gerði tónlistina í senn hnitmiðaða og margbreytilega. Endurtekningin er elsta tónlistarformið og hún hafði gjarnan dáleiðandi áhrif á tónleikunum.

Tónlistin samanstóð af svokölluðum standördum, þ.e. hálfgerðum nútímaþjóðlögum. Þarna var líka músík eftir Hank Williams, Bob Dylan, Thelonius Monk og auðvitað Scofield sjálfan. Hver einasta hending, hljómur og laglína var opinberun í meðförum gítarleikarans. Tónarnir voru fullir af tjáningu, þrungnir merkingu og skáldskap. Tækni Scofields var fyrirhafnarlaus, tónlistin flæddi án hindrana. Mikil breidd var í leiknum, allt frá innhverfum hugleiðingum upp í ástríðufulla hápunkta með óvæntum, súrrealískum útúrdúrum. Útkoman var skemmtilega lífræn, í senn brothætt og sterk, og ávallt yndislega fögur.

Ýmis ljóðabrot spiluðu rullu á tónleikunum, og gítarleikarinn miðlaði þeim til áheyrenda með sjarmerandi rödd sem minnti á annan frægan leikara, Jeff Bridges. Scofield hafði góða nærveru og gerði á tíðum skemmtilega lítið úr sér. Auk þess sagðist hann hafa komið til Íslands um jólaleytið í fyrra og heillast af íslensku jólasveinunum. Honum fannst „kúl“ að mamma þeirra æti börn!

Jazz í Salnum er frábær tónleikaröð sem brýtur blað í sögu tónlistar á Íslandi. Megi hún lifa um ókomna tíð og færa okkur margar fleiri svona dásemdir.

Niðurstaða:

Algerlega frábærir tónleikar með einum mesta djasstónlistarmanni samtímans.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s