Nýr kvartett kveður sér hljóðs

4 og hálf stjarna

Kammertónleikar

Verk eftir Webern, Mozart og Borodin í flutningi Kordo kvartettsins.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 10. febrúar

Ég sá nýlega skopmynd með fyrirsögninni „Ef Richard Wagner hefði verið bloggari“. Á myndin sitja Wagnerhjónin hvort við sína tölvuna. Konan segir: „Richard elskan, afhverju getur þú ekki bloggað stutt eins og aðrir bloggarar?“ Óperur Wagners eru nefnilega óvanalega langar, og stórvirkið hans, Niflungahringurinn, sem er fjórleikur, tekur um 16 klukkustundir í flutningi!

Sex bagatellur op. 9 eftir Anton Webern, sem hinn nýstofnaði Kordo kvartett lék á debut-tónleikum sínum í Hörpu á sunnudaginn, voru hins vegar eins og Twitter-færslur. Hver bagatella var örstutt, bara nokkrar hendingar, örlitlir hljómar, smávegis hrynjandi – og búið. Verkin voru samin út frá tólftónakerfinu, sem er ómstrítt og torrætt, enda var tónlistin dálítið spúkí. Hún var þó prýðilega flutt. Hljóðfæraleikararnir eru í Sinfóníuhljómsveit Íslands, fiðluleikararnir Páll Palomares og Vera Panitch, víóluleikarinn Þórir Már Baldursson og sellóleikarinn Hrafnkell Orri Egilsson. Þau voru með allt á hreinu. Leikur þeirra var þrunginn viðeigandi blæbrigðum sem voru fagurlega mótuð og skiluðu sér í notalegri dulúð.

Næst á dagskrá var strengjakvartett nr. 21 í D-dúr eftir Mozart. Hann er sá fyrsti í röð hinna svonefndu prússnesku kvartetta, sem voru tileinkaðir Friedrich Wilhelm II Prússakeisara. Tónskáldin í gamla daga tileinkuðu hefðarfólki gjarnan verk sín í von um að fá peninga upp úr krafsinu. Í þá daga hélt aðallinn bláfátæku listafólkinu uppi, líkt og starfslaun og aðrir styrkir gera í samtímanum.

Kvartettinn er frísklegur og fjörugur, og fjórmenningarnir léku af krafti. Mikið var um hröð tónahlaup og voru þau ætíð jöfn og meitluð. Samspilið var nákvæmt, heildarhljómurinn þéttur og safaríkur; útkoman var unaðsleg áheyrnar.

Ekki síðri var kvartett nr. 2 eftir rússneska tónskáldið Alexander Borodin, hvorki verkið sjálft né flutningurinn. Borodin, sem var uppi á nítjándu öldinni, var tónskáld í hjáverkum og leit á tónlistina sem hobbí. Hann starfaði sem læknir og efnafræðingur og framlag hans til lífefnafræði var drjúgt, hann gerði margar uppgötvanir. Í dag er hans þó aðallega minnst fyrir tónlistina.

Í kvartett Borodins skiptu þau Páll og Vera um sæti, hún var fyrsta fiðla en hafði verið önnur fiðla í hinum verkunum. Tónlistin var hrífandi rómantísk, stefin innileg og hástemmd, úrvinnsla grunnhugmyndanna full af ólgandi tilfinningum. Allt þetta skilaði sér í vönduðum leiknum, sem var pottþéttur og markviss, túlkunin ávallt gædd sannfærandi ákefð og tilþrifum.

Borodin samdi  kvartettinn til eiginkonu sinnar og ef marka má tónlistina var hann greinilega ákaflega ástfanginn af henni. Hægi kaflinn er frægur, enda laglínan sérstaklega grípandi. Kaflinn er vandasamur í flutningi, stundum er leikið mjög hátt á tónsviðinu, tónarnir eru naktir og má því ekkert út af bera ef tónlistin á ekki að verða óhrein. Leikur fjórmenninganna var þar svo gott sem fullkominn, tónlistin var seiðandi fögur í höndum þeirra.

Spennandi verður að fylgjast með Kordo kvartettinum í framtíðinni og er hann hér með boðinn velkominn í röð fremstu kammerhópa landsins.

Niðurstaða:

Afar vel leikið og tónlistin falleg.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s