Sjö börn í landi og sjö börn í sjó

4 stjörnur

Óperusýning

Konan og selshamurinn, barnaópera. Tónlist eftir Hróðmar I. Sigurbjörnsson, texti eftir Ragnheiði Erlu Björnsdóttur. Caputhópurinn lék, Skólakór Kársness söng. Aðalhlutverk: Björk Níelsdóttir og Pétur Oddbergur Heimisson. Leikstjórn: Helgi Grímur Hermannsson. Kórstjórn: Álfheiður Björgvinsdóttir. Myndlist: Freydís Kristjánsdóttir.

Kaldalón í Hörpu

sunnudagurinn 10. febrúar

„Einu sinni var maður nokkur austur í Mýrdal, sem gekk hjá klettum við sjó fram að morgni dags fyrir fótaferð; hann kom að hellisdyrum einum; heyrði hann glaum og danslæti inn í hellinum, en sá mjög marga selshami fyrir utan. Hann tók einn selshaminn með sér, bar hann heim og læsti hann ofan í kistu.“

Á þessum orðum hefst þjóðsagan Selshamurinn, sem nú er orðin að barnaóperu eftir Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og Ragnheiði Erlu Björnsdóttur. Óperan var frumflutt í Kaldalóni í Hörpu á sunnudaginn. Uppfærslan var hluti af verkaröðinni „Gamalt en glænýtt“, þar sem þjóðsögum er miðlað til barna með hjálp tónskálda og textahöfunda. Röðin er undir merkjum Töfrahurðar, félagi um starfsemi sem er helguð tónleikum og útgáfu og hefur að markmiði að því að opna heim tónlistarinnar, bæði ný verk og gömul, fyrir börnum.

Sagan fjallar um unga konu sem er hálfur selur. Hún á sjö börn í sjónum en þegar selshamurinn er horfinn getur hún ekki lengur farið heim til sín. Hún giftist manninum en veit ekki að það var hann sem tók haminn. Þau eignast sjö börn. Fyrir tilviljun finnur hún haminn og hverfur burt. Sagan eins og hún birtist í óperunni endar þó vel

Björk Níelsdóttir sópran var í hlutverki konunnar, og það var unaður að hlusta á hana syngja. Hún hefur bjarta og hljómmikla rödd, einkar fagra, prýðilega tækni og heillandi sviðsframkomu. Túlkun hennar einkenndist af ríkulegri tilfinningu og fölskvalausri einlægni. Er ekki kominn tími á að hún fái að spreyta sig á fjölum Íslensku óperunnar?

Pétur Oddbergur Heimisson baritón var í hlutverki mannsins. Frammistaða hans var nokkuð síðri. Hann hefur vissulega ómþýða rödd og leikur hans var sannfærandi, en söngurinn sjálfur var dálítið varfærnislegur og náði því aldrei flugi. Kannski spilaði taugaóstyrkur þar inn í.

Tónlist Hróðmars Inga var frábær. Hún var lagræn og byggðist á hefðbundnum dúr og moll, en var samt ávallt fersk. Laglínurnar voru frumlegar og skemmtilega rytmískar. Stígandin grundvallaðist á því að tónlistin var brotakennd í upphafi, en smám saman runnu hendingarnar saman svo úr varð grípandi söngur. Texti Ragnheiðar Erlu var líka hrífandi, blátt áfram og laus við alla tilgerð.

Skólakór Kársness lék börnin fjórtán. Kórsöngurinn var ríkulegur hluti af tónlistinni, hann var tær og fullkomlega samtaka undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur. Sömu sögu er að segja um leik Caputhópsins, sem var fágaður og fagmannlegur.

Leikmyndin samanstóð af röð mynda sem varpað var á vegginn fyrir ofan sviðið. Málverkin voru eftir Freydísi Kristjánsdóttur, þau voru litrík og falleg. Sýningin í heild var það líka, leikurinn var eðlilegur og flæðið í sýningunni gott undir leikstjórn Helga Gríms Hermannssonar. Bravó!

Niðurstaða:

Afar skemmtileg ópera og vönduð uppfærsla þar sem nánast allt var á sínum stað.

 

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s