Þá er ástæða til að hlæja

halldór kápa

Formáli

Ég var ellefu ára gamall þegar ég þreytti próf inn í Tónlistarskólann í Reykjavík. Prófið fór fram í salnum, og þegar ég gekk þangað inn sá ég röð kennara sitja við langborð. Það var dómnefndin. Mér gekk vel að spila og á eftir virti ég kennarana fyrir mér. Ég tók eftir manni með svart hár. Hann virtist strangur á svipinn, brosti a.m.k. ekki neitt, en þó skynjaði ég að hann var ánægður með leik minn. Þetta hlaut að vera Halldór Haraldsson. Ég hafði heyrt um hann, því vinkona mín átti systur sem var að læra hjá honum á píanó. Hún sagði að hann væri alltaf svo alvarlegur í spilatímunum. Í inntökuprófinu var þetta langalvarlegasti maðurinn, svo það hlaut að vera Halldór.

Ég man ekki hvenær við hittumst formlega, eflaust var það á göngum Tónlistarskólans eftir að ég hóf þar nám hjá Árna Kristjánssyni. Ég uppgötvaði þá að Halldór var miklu léttari í lund en ég hafði áður haldið. Hann var einstaklega vingjarnlegur, opinn og gamansamur, og við náðum fljótt saman.

Þegar ég var fjórtán ára fékk hann mig til að spila fjórðu sónötu Skrjabíns á fyrirlestri sem hann hélt um tónskáldið. Ég var þá kominn með brennandi áhuga á Skrjabín, hann var dulspekingur sem reyndi að túlka skynjun innri veruleika í tónum, og ég sjálfur var á kafi í dulhyggju.

Upp úr þessu fórum við Halldór að hittast af og til. Hann var í Lífspekifélaginu og ég vissi að hann stundaði yoga, bæði hugleiðslu og líkamsæfingar. Ég var mjög leitandi og Halldór hafði auðvitað miklu meiri reynslu en ég. Hann fræddi mig um yoga og austurlenska heimspeki, og ég drakk fróðleikinn í mig.

Mér fannst merkilegt hve auðvelt var að finna hliðstæður andlegrar heimssýnar í klassískri tónlist. Í verkum Skrjabíns mátti fá smjörþefinn af einingu við Almættið. Svipaðar upplifanir var einnig að finna í háleitustu tónsmíðum Beethovens, Mozarts, Schuberts, Brahms og margra annarra. Hið demóníska, sem Skrjabín var líka áhugasamur um, var út um allt í verkum Liszts, og guðfræðilegar vangaveltur mátti greina í Messiaen og Bach. Þannig mætti lengi telja.

Einhverju sinni sagði ég við Halldór: „Í rauninni höfum við engan áhuga á tónlist. Hún er bara svo góður vettvangur fyrir andlegar pælingar. Hún gerir hið ósýnilega sýnilegt.“

Eftir að ég tók einleikarapróf frá Tónlistarskólanum og fór erlendis í framhaldsnám, hélt ég áfram að hafa samband við Halldór. Það samband hefur varað fram á þennan dag.

Andlegu málin eru óþrjótandi umræðuefni okkar og svo er alltaf eitthvað að frétta. Það eru nýjar bækur á sófaborðinu hans Halldórs, ráðstefnur erlendis sem hann hefur sótt, fyrirlestrar sem hann er nýbúinn að halda; hann staðnar aldrei.

Áhugamál okkar eru þó ólík, ég hef fundið mig í kaþólskri mystík, vestrænni dulhyggju og kabbalisma, en Halldór er hrifnari af Vedanta og heimspeki Jiddu Krishnamurtis. Engu að síður eru sterkar tengingar þarna á milli. Sri Ramakrishna, bengalski dýrlingurinn og yoginn, prófaði mismunandi leiðir og komst að því að þær liggja allar að sama marki. Lokaupplifunin er í hvívetna eins. Við erum mismunandi persónuleikar og höfum ólíkan smekk, en við erum sameinaðir í því sem við leitum að.

Ég hef stundum öfundað Halldór af því hve hann virðist heilbrigður. Hann býr yfir einhverju innra jafnvægi sem ég sjálfur hef þurft að hafa mikið fyrir. Hann er vitur maður og lífsreyndur og ég hef alltaf litið upp til hans.

Af þessum ástæðum voru það forréttindi að fá að skrifa þessa bók og kafa í reynsluheim Halldórs og visku; uppgötva hvernig hann hefur borið sig að í lífinu undir mismunandi kringumstæðum. Ég hef reynt að læra af því og tileinka mér það, bæði í starfi mínu sem tónlistargagnrýnandi og kennari, í einkalífinu og í andlegri iðkun minni. Ég er ekki frá því að ég sé betri maður fyrir vikið.

Það var ný reynsla fyrir mig að skrifa bók, og það hefur tekið tæp tvö ár. Ég hef m.a. starfað sem tónlistargagnrýnandi og pistlahöfundur í 24 ár, en þetta er fyrsta bókin mín. Verkið var ánægjuleg upplifun. Ég hitti Halldór reglulega og tók upp viðtöl við hann sem ég skrifaði svo niður. Hann las þau yfir og sendi mér athugasemdir, ég vann þá textann áfram, sendi hann aftur til Halldórs, og þannig koll af kolli. Samstarf okkar var prýðilegt og bar hvergi skugga á.

Ég vil þakka konunni minni, Jóhönnu Jónasdóttur, fyrir alla hvatninguna á meðan á verkinu stóð, hún sýndi bókinni mikinn áhuga og hló dátt að sumu því sem þar stendur. Ég vil líka þakka eiginkonu Halldórs, Sue, fyrir trakteringarnar á meðan ég tók viðtölin. Þeir eru orðnir ófáir kaffibollarnir, kökurnar, brauðsneiðarnar og vatnsglösin sem hún hefur boðið mér. Við erum ekki bara andi, heldur líka líkami, og gott að gleyma því ekki. Takk fyrir!

Jónas Sen