Um Jónas

Jónas Sen er með meistaragráðu í tónlistarfræðum (Performance Studies) frá tónlistardeild City University í London. Hann er einnig með meistaragráðu í mennta- og menningarstjórnun frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Hann er auk þess með einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og nam líka píanóleik hjá Monique Deschaussées í París.

Jónas var tónlistargagnrýnandi við Fréttablaðið á árunum 2010-2023. Hann hefur skrifað fjölda greina um tónlist fyrir ýmis önnur dagblöð og tímarit – Pressuna, Eintak, Morgunpóstinn, Alþýðublaðið, DV, Morgunblaðið, Mannlíf og Tímarit Máls og menningar.

Jónas hefur starfað mikið með Björk Guðmundsdóttur. Hann var hljómborðsleikarinn á tónleikaferðalagi Bjarkar um heiminn á árunum 2007 og 2008. Hann var einnig hljóðfæraleikari á hluta af tónleikaferðalagi Bjarkar sem hún efndi til í kjölfar plötu sinnar Biophiliu.

Jónas hefur, í samstarfi við Björk, útsett og umritað fjölda laga hennar fyrir hljómborðshljóðfæri. Þar á meðal eru útsetningar hans og Bjarkar á lögunum á Biophiliu sem er að finna á iPad og iPhone útgáfu plötunnar. Nýrri útsetningar komu út í júní 2017.

Jónas hefur samið tónlist fyrir leikhús. Hann samdi tónlist við leikverk Gabrielu Friðriksdóttur, The Black Spider, sem sýnt var í Zurich 2008. Ennfremur samdi hann tónlist ásamt Valdimar Jóhannssyni fyrir H, an Incident, sem var frumsýnt í Brussel 2013 og ferðaðist víða um Evrópu í kjölfarið. Jónas og Valdimar sömdu tónlist fyrir sýningu Sigríðar Soffíu Níelsdóttur, Svartar fjaðrir, sem var opnunarsviðsverk Listahátíðar í Þjóðleikhúsinu í maí 2015. Þeir voru tilnefndir til Grímuverðlaunanna fyrir tónlistina.

Þrjár sjónvarpsþáttaraðir sem Jónas hefur stjórnað fyrir RÚV hafa allar hlotið tilnefningu til Edduverðlaunanna. Þetta eru Tíu fingur, Átta raddir og Tónspor. Fjórða þáttaröð hans fyrir RÚV, Tónahlaup, var sýnd í sjónvarpinu haustið 2015.

Jónas semur raftónlist og hefur áður leikið hana á Extreme Chill hátíðinni og á Iceland Airwaves. Hann samdi tónlist fyrir FUBAR eftir Sigríði Soffíu. Verkið var frumsýnt í Gamla bíói 26. október 2016. Þau Sigríður Soffía komu fram á Airwaves hátíðinni í nóvember það ár þar sem þau fluttu sérstaka tónleikaútgáfu FUBAR. Fyrir verkið var Jónas tilnefndur til Grímuverðlaunanna 2017 fyrir tónlist ársins og Sigríður Soffía var tilnefnd sem dansari ársins. Þau ferðuðust um Ísland í kjölfarið og sýndu verkið á fjölmörgum stöðum.

Jónas kom fram með Philip Glass og píanóleikurunum Vicky Chow, Jenny Lin og Madeline Hildebrand á tónleikum í Winnipeg 28. janúar 2018 þar sem þau fluttu allar etýður Glass.

Bók Jónasar um Halldór Haraldsson píanóleikara kom út haustið 2017.

Jónas samdi tónlistina við sjónvarpsþáttaröðina Óminni, sem sýnd var á Stöð 2 í opinni dagskrá haustið 2019. Hann samdi einnig tónlistina við sjónvarpsþáttaröðina Fólk eins og við, sem verður sýnd á Stöð 2 haustið 2023.

Auk annarra starfa er Jónas kennari í píanóleik við Tónmenntaskóla Reykjavíkur. Hann er listmálari og salsadansari í frístundum sínum, og hefur samið fjölmörg lög við trúarlega texta sem eru sungin reglulega í messum hjá Karmelsystrum. Um þessar mundir vinna þær að upptöku geisladisks með þessum lögum, og mun hann koma út á næstunni.

Jónas er höfundur tónlistarinnar við sviðsverkið Til hamingju með að vera mannleg eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur, sem var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 19. apríl 2023.

senjonas@gmail.com

Leave a comment