Flugeldasýning sem gleymist ekki

5 stjörnur

Verk eftir Prókofíev, Brahms og Atla Heimi Sveinsson. Einleikari Denis Kozhukhin. Stjórnandi: Antonio Méndez.

Eldborg í Hörpu

fimmtudagur 7. febrúar

Lífið er stutt og listin löng; það á sérstaklega við um sinfóníu eftir Brahms. Einhver gagnrýnandi lét þessi orð eftir sér. Víst er að sinfónía nr. 4 sem leikin var á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið var í lengri kantinum. Það gerði þó ekkert til, því hún var svo falleg.

Í klassískri tónlist skiptir úrvinnsla grunnhugmyndarinnar höfuðmáli. Ekki er nóg að endurtaka bara stefið aftur og aftur, líkt og í poppmúsík. Í fjóru sinfóníu Brahms er framvindan, þ.e. úrvinnslan, samt tiltölulega hófsöm. Söguþráðurinn er talsvert lágstemmdari en í sinfóníu eftir Sibelius eða Tsjajkovskí. Tónlistin er blátt áfram, einlæg og heiðarleg. Í takt við þetta var túlkun hljómsveitarinnar undir stjórn Antonio Méndez fremur hrá, það var ekki mikið nostrað við smáatriði. Stóru línurnar voru vissulega til staðar, en flutningurinn var eins og málverk sem þolir ekki nálægð. Engu að síður var leikurinn svipsterkur og tignarlegur, og hrífandi tónlistin komst því prýðilega til skila.

Af allt öðru sauðahúsi voru Örsmá eilífðarbrot eftir Atla Heimi Sveinsson. Þetta er gamalt verk, samið 1982. Ólíkt sinfóníunni eftir Brahms var atburðarrásin djörf, kröftug og ævintýraleg. Tónlistin virkaði sem einskonar hugstreymi. Allskonar hugmyndir skutu upp kollinum og þær fengu algert frelsi til að verða það sem þær vildu. Frelsið var heillandi því tónlistin kom stöðugt á óvart. Anna Guðný Guðmundsdóttir lék á píanó, sem var í aðalhlutverki, nánast eins og um píanókonsert væri að ræða. Hún spilaði af yfirburðum, tæknilegri færni og listrænni dýpt. Útkoman var afar skemmtileg.

Toppurinn á dagskránni var svo annar píanókonsertinn eftir Prókofíev. Einleikari var Denis Kozhukhin, en hann sigraði keppni Elísabetar drottningar í Brussel fyrir tæpum áratug. Keppnin er ein virtasta í heiminum og þess má geta að sjálfur Ashkenazy hlaut þar fyrstu verðlaun árið 1956.

Skemmst er frá því að segja að leikur Kozhukhins var einhver mesta flugeldasýning sem maður hefur upplifað í Eldborginni í Hörpu. Konsertinn eftir Prókofíev er afar krefjandi, en Kozhukhin hafði ekkert fyrir honum. Hann kastaði honum fram úr erminni, eins og stundum er sagt.

Fyrsti kaflinn af fjórum er óvanalegur, hann er að miklu leyti kadensa, þ.e. einleikskafli. Í venjulegum einleikskonsert er kadensan yfirleitt í lok fyrsta kaflans og tekur um 20 prósent af honum öllum. Kadensa Prókofíevs er hins vegar mun meiri um sig, stórbrotin og hrikaleg.

Leikur Kozhukhins var magnaður. Hann var yfirmáta glæsilegur tæknilega séð og svo spennuþrunginn og ofsafenginn að maður leitaði ósjálfrátt að beltum í sætinu til að hendast ekki til og frá. Svipaða sögu er að segja um hina kafla konsertsins, sem voru hver öðrum flottari, snarpir, litríkir og skemmtilegir. Hvergi var dauður punktur, maður gapti aftur og aftur. Ég lýsi hér með yfir stofnun aðdáendaklúbbs Kozhukhins á Íslandi.

Niðurstaða:

Tónleikarnir voru snilld og einleikarinn stórkostlegur.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s