Byrjaði vel, en endaði illa

2 og half stjarna

Verk eftir Kodaly og Rakhmaninoff. Flytjendur: Páll Palomares, Ólöf Sigursveinsdóttir og Bjarni Frímann Bjarnason.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 19. janúar

Fyrir nokkru var kvartað yfir því að löggur á landsbyggðinni væru svo hallærislegar í íslenskum spennuþáttaröðum. Tilefnið var treggáfuð sveitalögga sem var með leyfar af rækjusamloku í munnvikinu. Löggurnar frá höfuðborginni voru hins vegar alltaf með á nótunum og flottar í tauinu. Í tónleikaskránni í Kammermúsíkklúbbnum á sunnudaginn var sömuleiðis vegið að dreifbýlinu. Þar var hæðnislegur texti um „bændur og búalið“. Hann var í tengslum við aðra tónsmíðina á dagskránni, Dúó fyrir fiðlu og selló eftir Zoltán Kodály, sem Páll Palomares fiðluleikari og Ólöf Sigursveinsdóttir sellóleikari spiluðu.

Í tónleikaskránni var gefið í skyn að lýðurinn í sveitinni í Ungverjalandi og Balkanlöndunum hefði í gamla daga ekki borið neitt skynbragð á fjársjóðinn sem fólst í þjóðlögunum. Það þurfti lærða tónlistarmenn, Kodaly og Béla Bartók, til að bjarga menningarauðnum frá því að gleymast. Þetta gerðu þeir með því að ferðast um sveitirnar og taka upp „gólið“ í sveitavarginum.

Frjálslegt og lifandi

Í verki Kodalys gat að heyra eitthvað af þjóðlögunum sem fólkið söng inn á upptökur. Þau voru þó svo haganlega ofin inn í stærri mynd háþróaðs tónmáls að maður tók lítið eftir þeim. Tónlistin var byggð upp eins og samtal tvegga einstaklinga, þetta var ekki bara aðal- og aukarödd. Raddirnar voru réttháar, vógu hvor aðra upp, stundum með bergmáli, en oftar með mótmælum, sem sköpuðu hrífandi andstæður. Þær voru einkar lifandi í meðförum hljóðfæraleikaranna. Túlkunin var skemmtilega frjálsleg, full af innlifun og snerpu. Tæknileg atriði á borð við tónmyndun og nákvæmni í samspili voru ágætlega útfærð og vönduð.

Þetta eru góðu fréttirnar. Þær slæmu eru að Tríó elegiaque nr. 2 eftir Rakhmaninoff, hitt atriðið á efnisskránni, kom ekki vel út. Tríóið er óvanalega langt, tekur um þrjú korter og er ekki með bestu tónsmíðum hans. Sennilega var hann að hugsa heldur mikið um Tsjajkovskíj, enda tónlistin samin í minningu hans. Áhrif hans eru mjög sterk, stundum einum of.

Tríóið er nánast eins og píanókonsert; píanóið er afar fyrirferðamikið, en fiðlan og sellóið í bakgrunni. Bjarni Frímann Bjarnason spilaði á píanóið og því miður verður að segjast eins og er að leikur hans einkenndist af óöryggi. Hröð tónahlaup voru óhrein og sullkennd, og áslátturinn almennt óþægilega harður áheyrnar. Strengjaleikararnir spiluðu betur, en þó ekki alltaf. Upplifunin var því langdregin og lítt ánægjuleg. Korterin þrjú sem tekur að flytja verkið voru eins og kosmískar eilífðir og þannig á það ekki að vera.

Niðurstaða:

Sumt var vel leikið en annað ekki og sjálf tónlistin var misgóð.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s