Máttlaus tónlist við magnað ljóð

2 og hálf stjarna

Blóðhófnir, kammerópera eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur við ljóðabálk Gerðar Kristnýjar. Flytjendur: Tónlistarhópurinn Umbra ásamt gestum.

Iðnó

sunnudaginn 26. janúar

Fyrir nokkru síðan kom hingað djasspíanistinn og tónskáldið Jan Lundgren. Hann flutti ásamt kór frægt endurreisnarverk sem hann var búinn að endursemja, tónlistin var eins konar hugleiðing um upprunalegu tónsmíðina. Segja má að hún hafi þannig öðlast ákveðnari sess í nútímanum, hún líkt og fjallaði um samtímaleg málefni, en þó alltaf með skírskotun í liðinn heim. Fortíð og nútíð sameinuðust á eftirminnilegan máta.

Hugsanlega má halda einhverju svipuðu fram um ljóðabálkinn í bókinni Blóðhófni eftir Gerði Kristnýju. Hann var frumfluttur sem kammerópera eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur á Myrkum músíkdögum í Iðnó á sunnudagskvöldið. Textinn er byggður á einu þekktasta ljóð Eddukvæða, Skírnismálum. Söguhetjan, frjósemisgoðið Freyr, sem er á unglingsárunum, sest í hásæti Óðins án leyfis og sér þar um heim allan. Jötnamærin Gerður vekur athygli hans, og þar sem hann er frjósemisgoð verður hann að komast yfir hana. Félagi hans Skírnir tekur þetta að sér gegn gjaldi, en þar sem Gerður vill ekkert með Frey hafa, hefur Skírnir í hótunum við hana og neyðir hana til fylgilags við Frey.

Ofbeldi gegn konum

Ljóðið í Eddukvæðunum hefur lengi verið túlkað sem ástarljóð og talið táknrænt fyrir nýútsprungna frjósemi gelgjuáranna með tilheyrandi manndómsvígslu. Í ljóðabálki Gerðar Kristnýjar er það hins vegar árásin á konuna sem er meginþemað. Ljóð hennar snýst um ofbeldi, þar er ógn, illska, hatur og beiskja; stemningin er átakanleg.

Tónlistin náði þessu ekkert sérlega vel. Eins og áður segir var þetta kallað kammerópera; nokkrir strengjaleikarar spiluðu, en einnig var leikið á keltneska hörpu og harmóníum (stofuorgel). Lilja Dögg Gunnarsdóttir söng, en hljómsveitin tók undir í söngnum á völdum köflum. Stundum var einhvers konar „víkingabragur“ á tónlistinni, taktfastur þjóðlagastíll, nánast eins og undir dansinn vikivaka, en inn á milli var hún mínímalísk, með síendurteknum laghendingum. Undiraldan í ljóðinu skilaði sér aldrei í músíkinni, þjóðlagakeimurinn virkaði máttlaus, hann var svo vinalegur. Áhrifaríkustu augnablikin voru þegar tónlistin var sem einföldust, endurtekningar sköpuðu seiðandi stemningu. Því miður var lítið af henni.

Of kurteislegt

Að hluta til má kenna söngkonunni Lilju Dögg um að tónlistin varð sjaldnast að neinu bitastæðu. Túlkun hennar var of kurteisleg, eins og hún lifði sig ekki inn í textann að neinu marki. Strengjaleikurinn var líka fremur litlaus, það var helst keltneska harpan sem skapaði töfra, en þeir dugðu varla einir og sér.

Titillinn kammerópera er ónákvæmur. Sviðsetning var ekki fyrir hendi, enginn leikur eða það að söngnum væri kastað á milli ólíkra söngvara. Þetta voru miklu frekar ljóðatónleikar. Að vísu var sviðsmynd, en hún var í formi myndverks sem var varpað yfir sviðið. Það var ansi klént, aðeins einhverjir skuggar á hreyfingu sem gerðu fátt fyrir tónlistina. Heildarútkoman var óneitanlega vonbrigði.  

Niðurstaða:

Ósannfærandi tónlist sem komst aldrei á flug.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s