Hún elskar mig ef ég léttist

3 stjörnur

Caput-hópurinn flutti verk eftir K.óla, Veronique Vöku og Gavin Bryars. Einleikari: Una Sveinbjarnardóttir. Einsöngvari: Rúni Brattaberg.

Breiðholtskirkja

miðvikudaginn 29. janúar

Margir hlauparar þjást af kvíða og oft er því haldið fram að góður sprettur geti læknað alls konar andleg mein. Veðrið getur þó verið leiðinlegt, en þá er bara að fara á næstu líkamsræktarstöð og á haupabretti, og málið er leyst. Haupabretti er hversdagslegur hlutur, og því er erfitt að skilja ógnina sem það skapaði á tónleikum Caput-hópsins á Myrkum músíkdögum á miðvikudagskvöldið. Tónleikarnir fóru fram í Breiðholtskirkju, og hlaupabrettið var þar sem hljómsveitarstjórinn er venjulega, en umhverfis voru fjórir strengjaleikarar og tveir tréblásarar. Á brettinu var maður (Stefán Ingvar Vigfússon), en við hliðina á honum var kona (Brynhildur Karlsdóttir) sem gegndi hlutverki tímavarðar.

Þyngdartap eða dauði

Þungt fótatakið og vélrænn rytminn var óhugnanlegur. Í takt við hlaupið, sem var mishratt, léku hljóðfæraleikararnir ísmeygilega undirleikshljóma, og þeir juku á stemninguna. Hlauparinn hrópaði af og til ýmiss slagorð. Hann virtist aðallega vera að hvetja sig áfram. Inn á milli bar á vonleysi: „Elskar hún mig ef ég missi þrjú kíló… þrjú og hálft kíló… eða jafnvel tíu kíló?“

Verkið, sem hét Hlaupari ársins, var eftir unga konu sem kallar sig K.óla, en hennar rétta nafn er Katrín Helga Ólafsdóttir. Við fyrstu sýn var gjörningurinn bara einhver brandari, en hann var meira en það. Innra samræmi lá til grundvallar; miskunnarlaus takturinn og sálarangist hlauparans, ásamt merkingarþrungnum undirleiknum sköpuðu áhrifaríkar, áleitnar andstæður. Stígandin var mögnuð, verkið var hæfilega langt og í réttum hlutföllum.

Ekki sérlega áhugaverð

Því miður lá leiðin niður á við eftir það. Veronique Vaka átti næstu tónsmíðina á efnisskránni, fiðlukonsertinn Sceadu. Í tónleikaskránni mátti lesa að tónlistin væri afrakstur rannsóknarvinnu sem miðast að því að túlka landslag með nótnaskrift. Músíkin sjálf var þó lítt grípandi. Una Sveinbjarnardóttir lék á einleiksfiðluna og Guðni Franzson stjórnaði; vissulega stóðu þau sig bæði ágætlega. Una spilaði af griðarlegri vandvirkni en allt kom fyrir ekki, tónlistin náði aldrei að hefja sig til flugs. Jú, þarna voru athyglisverð blæbrigði og hljómasamsetningar, en þær virtust hafa takmarkaðan tilgang. Verkið var í heild þreytandi áheyrnar og afar langdregið.

Reykur án elds

Úr Egils sögu eftir Gavin Bryars olli líka vonbrigðum. Eins og nafnið gefur í skyn er textinn kveðskapur Egils Skallagrímssonar, og færeyski bassasöngvarinn Rúni Brattaberg söng einsöng með ríkulegum tilþrifum. Það dugði samt ekki til. Tónmálið missti marks, það var íburðarmikið en undarlega rislítið, belgingslegt á yfirborðinu en fátæklegt hið innra; reykur án elds. Skipti þá engu að raddbeiting söngvarans var ákaflega fagmannleg, leikur hljómsveitarinnar góður og söngur Kórs Breiðholtskirkju vandaður. Útkoman var samt leiðinleg.

Niðurstaða:

Verkin á tónleikunum voru afar misjöfn, en flutningurinn var prýðilegur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s