Lírukassinn rokkaði á Sinfóníutónleikum

4 stjörnur

Verk eftir Atla Heimi Sveinsson, Snorra Sigfús Birgisson, Missy Mazzoli, Báru Gísladóttur og Huga Guðmundsson. Einleikari: Andreas Borregaard.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 30. janúar

Lírukassar eru sjaldséð sjón á Íslandi og víðar sjálfsagt líka. Maður rak því upp stór augu þegar lírukassa var rúllað inn á svið í Eldborg á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum á fimmtudagskvöldið. Þetta var á undan frumflutningnum á harmóníkukonsert eftir Huga Guðmundsson sem bar heitið Box og var einleikari Andreas Borregaard.

Verkið byrjaði bara eins og hver annar einleikskonsert, með hljómsveitarleik, harmóníkuleik og einhverri blöndu þar á milli. En svo allt í einu var eins og einleikarinn missti áhugann á hljóðfærinu sínu og fór að fikta við lírukassann. Hann opnaði hann varlega og fór svo að snúa hljólinu sem lætur hann spila, en það var brotakenndur vals. Á meðan lék hljómsveitin undir og það skapaði furðulega sterka heildarmynd. Við tók nú óvanalega frumleg samsuða lírukassaleiks og harmóníkuspils með dyggri þátttöku hljómsveitarinnar. Var hún í senn drumakennd og nostalgísk, en einnig áleitin og þrungin merkjanlegum sársauka sem snart mann.

Guð bjargaði málunum

Konsertinn var í þremur hlutum. Annar hlutinn bar yfirskriftina Deus ex machina, þ.e. Guð í vélinni. Það er nafnið á ódýru bragði í leikhúsi, kvikmyndum eða skáldsögu, þegar eitthvað óvænt gerist sem reddar annars óleysanlegu vandamáli eða aðstæðum. Hugtakið átti við konsertinn í heild sinni, lírukassinn var svo sannarlega Guð í vélinni, utanaðkomandi afl sem breytti atburðarrásinni svo hún hlaut farsælan endi. Borregaard spilaði frábærlega vel og hljómsveitin sömuleiðis undir öruggri stjórn Daníels Bjarnasonar, útkoman var einkar ánægjuleg. Þetta er án efa einn merkasti einleikskonsert íslenskra tónbókmennta.

Gaman var líka að verkinu Hjakk, sem var eftir Atla Heimi Sveinsson. Það er upphaflega frá sjöunda áratug síðustu aldar, en Atli endurskoðaði það rúmum tíu árum síðar. Eins og nafnið ber með sér var tónmálið kraftmikið og endurtekningarsamt, en um leið var uppbygging þess markviss og glæsileg, með áhrifamiklum hápunkti og flottu niðurlagi.

Hefði mátt vera lengra

Hin efnilega Bára Gísladóttir átti tónsmíð á tónleikunum, Ós að nafni. Hún var örstutt og hefði vel mátt vera helmingi lengri, því hún var nánast búin áður en hún byrjaði.

Maður bjóst jafnframt við meiru frá Missy Mazzoli, en samkvæmt tónleikaskránni átti verkið, Sinfonia (for Orbiting Spheres), að vera einskonar tónræn eftirlíking af sólkerfinu. Það sem heyrðist var meira eins og rómantískt næturljóð, áferðarfallegt vissulega, en ekki sérlega tilkomumikið.

Loks ber að nefna konsert fyrir hljómsveit eftir Snorra Sigfús Birgisson, sem hér var frumfluttur. Tónlistin var mestan partinn tvíþætt, annars vegar voru hrjúfar laglínur þar sem blásturshljóðfæri voru áberandi, hins vegar liggjandi strengjahljómar sem hefðu þess vegna getað sómt sér í einhverri „noir“ bíómynd. Þetta skilaði sér í dramatískri togstreitu sem var ávallt áhugaverð en kom þó aldrei beinlínis á óvart. Tónlistin var kannski dálítið gamaldags og í ætt við margt sem hefur verið gert oft áður, eins og á síðustu áratugum aldarinnar sem leið.

Niðurstaða:

Skemmtilegir tónleikar með magnaðri tónlist og góðum flutningi.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s