Hinn ljúfi hrollur meistarans

4 og hálf stjarna

Verk eftir Beethoven, Prókofíev og Boulanger. Flytjendur: Hulda Jónsdóttir og Guðrún Dalía Salómonsdóttir.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 16. febrúar

Söngvarar á sautjándu öldinni skreyttu söng sinn gjarnan með trillum, þ.e. hröðum tveimur nótum sitt á hvað, hlið við hlið á tónaskalanum. Síðar meir duttu trillurnar úr tísku, og voru þær þá litnar hornauga, nema sem grín. Trillurnar í hljóðfæratónlist entust betur, og Beethoven, sem fæddist seint á átjándu öld, elskaði þær. Hann og trillurnar voru í aðalhlutverki á tónleikum Huldu Jónsdóttur fiðluleikara og Guðrúnar Dalíu Salómonsdóttur í Norðurljósum í Hörpu á sunnudaginn.

Sælukenndar trillur

Meginviðfangsefnið á efnisskránni var síðasta sónata Beethovens fyrir píanó og fiðlu, en þar er trilla hluti af einu grunnstefinu. Trillan er í eðli sínu fremur óróleg, en hér er hún meira eins og ljúfur hrollur, sæluvíma sem hríslast um líkamann. Stemningin í tónlistinni er friðsæl, einnig í hröðum köflum, sem eru afslappaðir og þrungnir sjarmerandi sveitarómantík.

Huldu og Guðrúnu Dalíu tókst að miðla tónlistinni til áheyrenda á alveg réttan hátt. Túlkun þeirra var yfirveguð og ljúf, en um leið full af tilfinningadýpt. Flæðið í tónlistinni var sannfærandi, trillurnar voru ávallt fagurlega mótaðar og samspilið í heild sinni í prýðilegu jafnvægi. Einhver kann að ætla að píanóleikarinn hafi verið undirleikari, en svo var alls ekki. Bæði hljóðfærin gegndu jafn mikilvægu hlutverki, rétt eins og tveir mótleikarar. Raddir þeirra kölluðust á, svöruðu hvor annarri, og lögðu áhersluna saman á þungamiðjuna í hverjum þætti. Heildarmyndin var innileg og falleg.

Hugljúft og glæsilegt

Önnur tónsmíð eftir Beethoven, svokölluð Rómanza í G-dúr op. 40, var jafnframt á dagskránni. Hún einkenndist af hlýlegri, rómantískri mýkt, sem var einkar vel útfærð af hljóðfæraleikurunum.

Á milli þessara tveggja verka var einleikssónata (þ.e. án píanóleikarans) í D-dúr op. 115 eftir Prókofíev. Meira að segja þar heyrðist glitta í Beethoven, en aðalstefið í öðrum kaflanum er líkast til innblásið af byrjuninni á strengjakvartettinum op. 131 eftir tónskáldið. Sónatan er samt algerlega í stíl Prókofíevs, í senn leikandi og snörp, laglínurnar grípandi og hápunktarnir stórbrotnir.

Hulda lék tónlistina af innblæstri. Hver tónaruna var áreynslulaus og mögnuð, ákefðin í túlkuninni smitandi, heildarmyndin tignarleg og yfirmáta glæsileg.

Aukalagið var eftir Lili Boulanger, noktúrna sem var flutt af báðum hljóðfæraleikurunum. Boulanger var uppi um aldamótin þarsíðustu. Hún varð ekki gömul, aðeins 24 ára, enda hafði hún alla tíð þjáðst af vanheilsu. Noktúrnan hennar samanstendur af hrífandi laglínum og töfrakenndum, fíngerðum hljómum sem voru nostursamlega ofnir í viðkvæmri spilamennskunni. Útkoman var í hæsta gæðaflokki.

Niðurstaða:

Afar falleg tónlist og magnaður flutningur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s