Pínulítið af þessu, agnar ögn af hinu

3 stjörnur

Verk eftir Lili Boulanger, Gustav Mahler, Benjamin Britten og Claude Debussy. Einsöngvari: Michelle DeYoung. Stjórnandi: Hannu Lintu.

Eldborg í Hörpu

föstudaginn 21. febrúar

Einu sinni gekk kaþólski dýrlingurinn Antóníus af Padóvu inn í kirkju þar sem hann hugðist predika. Því miður var hún tóm. Hann dó samt ekki ráðalaus, heldur hélt niður að sjó og hóf þar að predika yfir fiskunum. Þeir þyrftu á guðsorði að halda líka. Hann hélt þrumandi ræðu sem var svo full af andakt að fiskarnir lögðu við hlustirnar. Þeir syntu í heilu torfunum upp að flæðarmálinu og urðu alveg hugfangnir. Þegar Antóníus hafði lokið máli sínu, sneru fiskarnir við, syntu burt og héldu áfram að vera þeir sjálfir. Þorskurinn var ennþá þorskur og krabbinn krabbi. Ekkert hafði breyst.

Þessa kómísku sögu er að finna í safni þýskra þjóðkvæða sem kom út árið 1805 undir nafninu Undrahorn piltsins, eða Des Knaben Wunderhorn. Ljóðið sem hér er til umræðu fjallar á skemmtilegan hátt um breyskleika mannsins og frumhvatirnar sem ráða öllu. Stundum þarf meir en eina predikun til að hafa einhver varanleg áhrif. Gustav Mahler samdi tónlist við ljóðið, sem og mörg önnur úr kvæðasafninu, og voru sum þeirra á efnisskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á föstudagskvöldið.

Tæknilega gott, en hvað svo?

Michelle DeYoung mezzósópran söng einsöng, en Hannu Lintu stjórnaði. Söngkonan var með allt á hreinu, rödd hennar var þétt og örugg, sat prýðilega, hver tónn var fagurlega mótaður. Sömu sögu er að segja um hljómsveitarstjórann, sem var pottþéttur í undirspilinu, stjórnaði hljómsveitinni af festu, enda spilaði hún fallega.

Engu að síður var útkoman ekkert sérstök. Manni var einhvern veginn alveg sama um kveðskapinn og sönginn og náttúrustemningarnar og nostalgíuna sem stundum sveif yfir vötnum. Það var einhver deyfð yfir túlkuninni. Ólíkt andagift Antóníusar sem snart litla fiska þá var ekkert hér sem skipti einhverju máli. Söngurinn fór inn um eitt og út um hitt. Innblásturinn vantaði. Ef ég hefði verið fiskur sjálfur hefði ég bara verið áfram í undirdjúpunum.

Ekki í neinu samhengi

Svipaða sögu var að segja um D´un matin de printemps eftir Lili Boulanger, sem var heillandi á sinn hátt, en var eiginlega búið áður en það byrjaði. Fjórar sjávarmyndir úr óperunni Peter Grimes eftir Benjamin Britten voru ekki heldur neitt sérstakar þegar maður hefur heyrt og séð alla óperuna. Hún gerist í sjávarþorpi og fjallar um meinleg örlög. Í henni er kröftug undiralda, hrífandi andstæður og spennandi atburðarrás. Bútarnir sem nú voru fluttir voru ekki í neinu samhengi. Þeir voru eins og myndasafn sem hefur týnst og aðeins fjórar myndir eru eftir af einhverju sem enginn man lengur hvað er.

Tónleikarnir voru samt ekki alslæmir. Toppurinn var lokaverkið, La Mer, eða Hafið, eftir Debussy. Það var svo sannarlega magnaður kveðskapur sem kallaði allt mögulegt fram í hugskotið. Áberandi hörpuspil sveipaði tónlistina goðsagnakenndum ljóma, og tónmálið var síbreytilegt og gætt óviðjafnanlegum sjarma. Hljómsveitin spilaði yfirleitt af glæsileika. Einstaka strengjahljómur var reyndar ekki alveg tær, en almennt var leikurinn þróttmikill og ákafur, en líka blíður þegar við átti. Útkoman var mögnuð og áhrifarík; þarna var innblásturinn svo sannarlega til staðar – loksins.

Niðurstaða:

Brotakennd dagskráin komst ekki á flug fyrr en undir lokin.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s