Undursamlegar laglínur sem óþarfi var að kynna

4 stjörnur

Vlasov, Rimskí-Korsakoff, Tsjajkovskí, Rakhmanínoff, Rostovskaja og fleiri voru á dagskránni. Flytjendur voru Alexandra Chernyshova, Sergei Telenkov og Kjartan Valdimarsson.

Kaldalón í Hörpu

Laugardaginn 29. febrúar

Nýafstaðin söngvakeppni Ríkisútvarpsins vakti kurr vegna tækniklúðurs og fyrir það að kynnar keppninnar voru aðalstjörnurnar, ekki sjálfir keppendurnir. Þetta síðarnefnda var líka áberandi á tónleikum í Kaldalóni í Hörpu á laugardaginn. Dagskráin samanstóð af rússneskri ljóða- og óperutónlist eftir nokkur tónskáld, bæði gömul og ný. Á slíkum tónleikum er söngtextinn gjarnan hafður með í tónleikaskránni, auk fróðleiks um verkin og tónskáldin. Hér var tónleikaskráin í skötulíki en kynnir, Gerður Bolladóttir, talaði á milli laganna. Verður að segjast eins og er að það kom ekki vel út. Gerður hefði mátt vera betur undirbúin, hún mislas suma titlana; það var eins og hún sæi stundum ekki almennilega það sem hún var að lesa. Auk þess endaði hún hverja kynningu á orðunum „gerið þið svo vel“ sem varð fljótt leiðigjarnt og truflaði flæðið í dagskránni.

Einlægni og tilfinningadýpt

Þetta er synd, því að öðru leyti voru þetta prýðilegir tónleikar. Tveir söngvarar komu fram, þau Alexandra Chernyshova og Sergei Telenkov. Chernyshova söng afar fallega, sópranrödd hennar var einstaklega tær, fíngerð og fáguð, en samt kröftug. Víbratóið í rödd hennar var hárnákvæmt og markvisst, túlkunin ávallt gædd einlægni og tilfinningadýpt.

Telenkov, sem er bassabaritón,  var smá stund að hrökkva í gang, hann virtist óöruggur til að byrja með, en svo héldu honum engin bönd. Rödd hans var voldug og þróttmikil, túlkunin glæsileg og þrungin smitandi innlifun.

Píanóleikarinn var Kjartan Valdimarsson, sem er fyrst og fremst þekktur í djassheiminum. Tónlistin nú var talsvert þyngri en maður hefur heyrt frá honum áður. Hann stóð sig einkar vel, leikur hans var skýr og blæbrigðaríkur, fullur af stemningu. Þannig lyfti hann söngnum upp í hæstu hæðir.

Dásamleg tónlist

Tónlistin sjálf var falleg, oft mjög svo. Þarna voru verk eftir Rimskí-Korsakoff (ekki Korskakoff, eins og kynnirinn sagði) og Tsjajkovskí, þar á meðal úr óperunni Jólöntu (ekki Lólöntu eins og kynnirinn sagði). Lögin voru hrífandi og andrúmsloftið töfrakennt í meðförum söngvaranna og píanóleikarans.

Rakhmanínoff var líka fyrirferðarmikill. Hann mun einu sinni hafa mælt svo: „Tónlist og ljóðlist eru systur; sorgin er þeirra móðir.“ Tónskáldið er auðvitað þekktast fyrir píanókonsertana sína, sem eru reglulega fluttir á sinfóníutónleikum, en færri vita að hann samdi forkunnarfögur sönglög og mögnuð kórverk. Þau eru vissulega melankólísk og dökk, en ákaflega heillandi engu að síður. Rakhmanínoff hafði þá gáfu að geta samið undursamlegar laglínur, og þær voru margar á þessum tónleikum.

Rúsínan í pylsuendanum var frumflutningur á sjö lögum (svokölluðum rómönsum) eftir Antónínu Rostovskaju við ljóð eftir Púshkín. Kjartan sté þá til hliðar og Katie Buckley settist við hörpuna. Hún spilaði af öryggi og skýrleika, og léttleika þegar við átti. Alexandra Chernyshova söng af smekkvísi og fágun. Tónlistin var stórfengleg, fallega melódísk og stundum í einskonar þjóðlagastíl. Hún fór með mann í alls konar ferðalög. Tónskáld sem nær slíkum áhrifum á svo sannarlega erindi við okkur öll.

Niðurstaða:

Frábærir tónleikar, en kynningarnar trufluðu.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s