Glæsilegt sjötugsafmæli Sinfóníunnar

5 stjörnur

Sinfóníutónleikar

Verk eftir Sibelius, Mahler og Pál Ísólfsson. Einleikari: Augustin Hadelich. Stjórnandi: Eva Ollikainen.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 5. mars

Þegar finnska tónskáldið Jean Sibelius var á fimmtugsaldri greindist hann með krabbamein í hálsi. Hann var alkóhólisti og stórreykingamaður og því komu veikindin ekki á óvart. Hann fór í aðgerð sem heppnaðist vel og lifði lengi eftir það, án þess að hætta fyrri siðum. Á efri árum gerði hann grín að þessu og benti á að allir læknarnir sem ráðlögðu honum að hætta að reykja og drekka væru dauðir en hann sjálfur tórði. Ha ha.

Fiðlukonsertinn eftir Sibelius var á dagskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Konsertinn átti erfiða fæðingu, ekki síst vegna þess hve Siblius drakk mikið. Honum var illa tekið í byrjun, en eftir mikla yfirlegu (og kannski nokkur stutt áfengisbindindi) tókst að koma honum í almennilegt form.

Fiðlan var töfragripur

Hljómsveitin átti merkisafmæli á tónleikunum, sjötíu ár eru síðan hún var stofnuð. Einleikarinn var Grammy-verðlaunahafinn Augustin Hadelich. Fiðlan sem hann spilaði á var ekkert venjuleg, dýrgripur frá þvi um miðja 18. öld. „Ónefndur velgjörðarmaður“ fól  Hadelich hana í hendur í gegnum tiltekna stofnun, eins og það var orðað í tónleikaskránni. Það hljómaði eitthvað spúkí. Maður hafði á tilfinningunni að fiðlan væri töfralampi, sem andi úr grárri forneskju tengdist, rétt eins og í ævintýrinu um Aladdín.  

Vissulega var flutningurinn göldrum líkastur. Hadelich lék svo vel, af yfirgengilegri nákvæmni, en samt gríðarlegri innlifun, að það var einfaldlega dásamlegt. Konsert Sibliusar er margslunginn og fullur af hrífandi laglínum og spennuþrunginni úrvinnslu, sem Hadelich útfærði af fullkominni fagmennsku. Útkoman var mergjuð.

Frumkvöðullinn Páll Ísólfsson

Tvö önnur verk voru á efnisskránni. Annað samanstóð af fjórum þáttum úr svonefndri Myndabók Jónasar Hallgrímssonar og var eftir Pál Ísólfsson. Páll var merkilegur tónlistarmaður og var meðal þeirra sem áttu frumkvæðið að því að Sinfónían varð til. Þættirnir hér voru samdir við leikrit sem snerist um kvæði og sögur Jónasar. Tónlistin var létt og leikandi og hún var ákaflega vel spiluð af hljómsveitinni. Eva Ollikainen stjórnaði, en hún mun taka við sem aðalstjórnandi næsta haust. Frammistaðan á tóneikunum nú lofaði góðu. Ollikainen hafði góða nærveru, hún vissi greinilega nákvæmlega hvað hún vildi og hljómsveitin líka. Bendingar hennar voru skýrar og hugsunin auðlesin.

Sterkt flæði

Hitt verkið á tónleikunum var fyrsta sinfónían eftir Mahler. Hún tekur næstum klukkutíma í flutningi, en samt var hún ekki lengi að líða. Stemningin var dulúðug, fyrsti kaflinn var sveimkenndur og dreymandi, en svo tók allt mögulegt við. Kunnuglegastur er auðvitað þriðju kaflinn, sem byggir á stefinu um Meistara Jakob, en það er þó í moll-tóntegund, ekki dúr eins og venjulega. Mahler fléttaði því inn í tónlistina af ótrúlegum sjarma, sem skilaði sér með mikilli prýði á tónleikunum. Hljómsveitin spilaði af krafti og viðkvæmni í senn, fíngerðustu hendingar voru fagurlega  mótaðar og meginlínurnar settar fram af tignarleika. Heildarmyndin einkenndist af sterku flæði sem greip mann frá fyrstu mínútunum og alveg fram í endinn. Upplifunin var dýrðleg og hæfði tímamótunum svo sannarlega.

Niðurstaða:

Frábærir tónleikar; falleg tónlist og einstæður flutningur

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s