5 stjörnur
Los Aurora í tónleikaröðinni Jazz í Salnum
Salurinn í Kópavogi
Þriðjudagur 10. mars
Í leyniskjölum sem voru birt á WikiLeaks fyrir um áratug kom fram að Muammar Gaddafi, fyrrum leiðtogi Libýu, hefði haft gríðarlegan áhuga á flamenco dansi. Hann var alveg vitlaus í hann. Ljóst er að hann hefði skemmt sér á tónleikum Los Aurora í Salnum í Kópavogi á þriðjudagkvöldið. Þar dansaði karlmaður flamenco, og ekki með neinum smáræðis tilþrifum. Þetta var Jose Manuel Alvarez, sem minnti töluvert á leikarann Keanu Reeves. Satt best að segja minntu hljóðfæraleikararnir þrír líka á leikarann. Sömuleiðis söngvarinn. Það er væntanlega ástæðan fyrir því að nokkrar konur meðal tónleikagesta réðu ekki við sig, heldur munduðu símana sína til að taka upp myndskeið hvað eftir annað.
Svona skefjalaus símanotkun á tónleikum er vissulega þreytandi fyrir aðra, en tónleikarnir sjálfir voru það þó alls ekki. Tónlistin byggðist að einhverju leyti á klassískum, spænskum verkum, þ. á m eftir Manuel de Falla, sem var uppi á fyrri hluta aldarinnar sem leið. Nálgun fimmmenninganna var samt nýstárleg. Tónmálið var djass, en með sterkum, spænskum, þjóðlegum áhrifum sem skapaði afar sannfærandi heild. Andrúmsloftið var líflegt. Meira að segja í innhverfari lögunum var takturinn áleitinn, ýmist frá slagverkinu, eða hreinlega með klappi og stappi.
Fótafimur dansari
Svokallaður pick-up míkrófónn var límdur við sviðsgólfið, og hann varpaði inn í hljóðkerfið ævintýralega skarpri fótafimi dansarans. Það var dáleiðandi taktur. Engu að síður var dansinn hóflega mikill, stundum sat Alvarez bara á sviðinu við hlið Martinez og klappaði í takt. Í flamenco tónlist er dansinn ekki aðalatriðið, heldur söngurinn. En meira að segja söngvarinn fékk líka frí á tímabili, og þá spiluðu hinir þrír. Þetta voru píanistinn Max Villavecchia, bassaleikarinn Javier Garabella og slagverksleikarinn Joan Carles Mari. Leikur þeirra einkenndist af tæknilegum yfirburðum, óskertu flæði og miklu ímyndunarafli. Maður vissi aldrei hvert tónlistin færi næst, hún var viðburðarrík og spennuþrungin í hvívetna.
Sjaldheyrður söngur
Hrár söngur Pere Martinez var líka magnaður. Rödd hans var yndisleg, bæði mjúk en líka kröftug, eins og bragsterkt hunang. Hann var í hinum svokallaða cante flamenco stíl, sem er ættaður frá Andalúsíu, en með rætur í söng sígauna, trúarsöng Gyðinga og fleiri hefðum. Svona söngur heyrist almennt ekki í íslensku tónlistarlífi, og því má segja að tónleikarnir hafi verið merkisviðburður.
Í heild var dagskráin frábær skemmtun. Hún var hluti af tónleikaröðinni Jazz í Salnum, sem er óvanalega metnaðarfull og eitthvað það besta í tónlistarlífinu á Íslandi. Samt sem áður var mætingin á tónleikana nú fremur dræm. Freistandi væri að kenna Covid19 um, en það er langsótt. Djassinn á einfaldlega undir högg að sækja. Hann telst til jaðartónlistar hér á landi, hver svo sem ástæðan er. Vonandi á það eftir að breytast er fram líða stundir. Góður djass lætur manni líða eins og allt sé í himnalagi, og hver þarf það ekki núna á þessum síðustu og verstu?
Niðurstaða:
Magnaður söngur, ævintýralegur dans, og litríkur hljóðfæraleikur gerðu tónleikana frábæra.
Un concierto de fusion sin normas ni lo previsible, fresco, crudo, sutil y con mucho arte y ganas de vivir!
Aire y viento fresco que te revuelve el pelo y te dejá como un ser nuevo, en todos los sentidos……
Ole los huevos, el coraje y las ganas de transmitir su arte y provocación ante la vida y los desafios a lo predecible….