Sinfóníutónleikar í skugga veirunnar

4 og hálf stjarna

Bein útsending RÚV frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þar sem flutt voru verk eftir Rakhmanínoff, Tsjajkovskí og Stravinskí. Einleikari: Olga kern. Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 12. mars

Er nauðsynlegt að getað spilað heilan píanókonsert blindandi? Ef marka má kvikmyndina Shine frá 1996, um ástralska píanistann David Helfgott, virðist svarið vera játandi. Helfgott átti við geðræn vandamál að stríða, og píanókeppni sem hann fór í ungur að árum ýtti honum fram af brúninni. Mögnuðustu senurnar í myndinni er þegar hann er að undirbúa sig fyrir keppnina hjá kennaranum sínum og er með bundið fyrir augu. Hann er þá að leika þriðja konsertinn eftir Rakhmanínoff.

Þetta atriði kemur upp í hugann, því hér er fjallað um síðustu tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands næstu vikurnar. Undirritaður fór ekki, en hlustaði eingöngu á flutninginn í útvarpinu á RÚV, blindandi ef svo má segja. Yfirvofandi samkomubann vegna Covid 19 er ástæðan; maður er farinn að veigra sér við að fara á fjölsótta viðburði. Á efnisskránni var þessi stóri píanókonsert Rakhmanínoffs, en einleikarinn var Olga Kern.

Afar góð upptaka

Upptakan var framúrskarandi, í senn hljómmikil og tær. Þrívíddin í hljómnum, sem fólk á að venjast á lifandi tónleikum var að vísu ekki almennilega til staðar; öll hljóðfærin virtust vera jafn nálægt. Mun betur heyrðist í tréblásurum en venjulega, sérstaklega þverflautunni, og einnig voru pákurnar óvanalega áberandi. Þetta var þó ekki slæmt; almennt talað var heildarhljómurinn í prýðilegu jafnvægi, litríkur og glæsilegur; bara öðruvísi.

Samkvæmt kynninum, Guðna Tómassyni, var einleikarinn í fallegum, rauðum kjól. Gaman hefði verið að sjá hann! En það skipti engu máli, hið heyranlega var aðdáunarvert. Konsertinn eftir Rakhmanínoff er með þeim erfiðari og samanstendur af flugeldasýningum, sem eru samt aldrei yfirborðslegar. Þvert á móti er tæknin ávallt í þjónustu innblástursins, laglínurnar eru fullar af tilfinningahita og hápunktarnir eru stórfenglegir. Kern spilaði af snilld, leikur hennar var kraftmikill og skýr, án nokkurrar fyrirstöðu. Túlkunin var margbrotin, þrungin ljóðrænu og tilfinningaólgu, akkúrat eins og hún átti að vera. Þetta var frábært.

Fínlegt, en einnig voldugt

Tvö önnur rússnesk verk voru á dagskránni. Forleikurinn að Rómeó og Júlíu eftir Tsjajkovskí var annað þeirra. Hann var forkunnarfagur í meðförum hljómsveitarinnar undir styrkri stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar. Leikur hljóðfæraleikaranna allra var nákvæmur og fagmannlegur, fínlega mótaður þegar við átti og voldugur þess á milli.

Hin tónsmíðin var svokölluð svíta, þ.e. röð þátta, úr Eldfuglinum, ballett eftir Stravinskí. Þetta er sérlega grípandi tónlist sem var fyrirferðarmikil í annarri bíómynd, Shortcuts eftir Robert Altman. Þar er ein persónan sellóleikari, ung kona. Hún er þunglynd og er sífellt að æfa vögguvísuna úr Eldfuglinum. Vissulega er músíkin dapurleg, en bara ef hún er slitin úr samhengi verksins í heild, sem er sigri hrósandi í lokin. Flutningurinn á tónleikunum var magnaður undir markvissri stjórn Bjarna Frímanns, lifandi og skemmtilegur. Laglínurnar risu hátt og hljómarnir í endann voru gæddir göldrum sem ekki er hægt að lýsa með orðum. Allt fór vel í tónlistinni; megi hið sama gerast í veruleikanum hjá okkur öllum.

Niðurstaða:

Vönduð útsending frá skemmtilegum tónleikum sem einkenndust af glæsileika og fagmennsku.

One thought on “Sinfóníutónleikar í skugga veirunnar

  1. Píanóeinleikurinn var aðeins of átakalaus þar sem konan í rauða kjólnum var svo viss um að tíúka átökin í rauða kjólnum af fullum hug og ástríðu, að mér fannst hún aðeins örlítið vilja hefja sig upp á kostnað verksins og þess vegna kannski náði hún ekki sinni einlægri túlkun á þessu stórkostlega verki. Fær listamaður sem kann verkið utanað, án nótna og tæknin fullkomin, en þessi persónulega ögrun og sýndarmennska settu smá skugga á flutning hennar á þessu magnaða verki, þar sem vantaði aðeins uppá einlægni og auðmýkt í flutningi verksins.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s