Ráðgátan um píanósnillinginn

5 stjörnur

Bruno Monsaingeon: Richter-The Enigma í tveimur hlutum á https://www.youtube.com/watch?v=yfJVpjI3wJM og https://www.youtube.com/watch?v=iVhxqEN9j7k

„Flensan hans Richters – humm, humm!“

Þessi skrýtna fyrirsögn birtist á sínum tíma í frönsku dagblaði. Tilefnið var að rússneski píanósnillingurinn Sviatoslav Richter var enn einu sinni búinn að aflýsa tónleikum sem hann átti að halda. Hann var alræmdur fyrir það. Ástæðan var ekki sú að hann væri slæmur til heilsunnar. Hann bara vildi ekki plana líf sitt langt fram í tímann, eins og tónleikahaldarar og sinfóníuhljómsveitir þurfa því miður að gera.

Richter langaði til að vera frjáls, spila fyrir fólk þegar hann var þannig stemmdur, hvort sem það var í litlum eða stórum sal, heimsborg eða smáþorpi. Honum var alveg sama hvar.

Núna þegar Covid 19 geisar og öllum tónleikum hefur verið aflýst, þá er tilvalið að horfa á YouTube í staðinn. Nánar tiltekið á heimildarmynd eftir Bruno Monsaingeon sem ber heitið Richter-The Enigma. Hún er í tveimur hlutum sem hvor um sig er næstum einn og hálfur tími á lengd. Þetta er frábær heimildarmynd um klassíska tónlist, hægt er að sjá hana aftur og aftur.

Einn mesti píanóleikari sögunnar

Myndin er frá árinu 1998 og var tekin rétt áður en Richter dó. Hann var einn mesti píanóleikari sögunnar, en samt, furðulegt nokk, næstum sjálflærður. Afar mikið af myndefni er til með honum frá ýmsum tímabilum. Þetta eru sjónvarpsupptökur af ótal tónleikum þar sem hann er að spila æsilega tónlist eftir Chopin, Liszt, Prókofíev, Rakhmanínoff, Sjostakóvitsj og fjölmarga aðra. Það eru flugeldasýningar, en einnig hástemmd, mergjuð augnablik.

Richter mundi tímana tvenna. Hann þekkti persónulega Prókofíev, Sjostakóvitsj og Britten, og ein upptakan í myndinni er einmitt af honum og hinum síðastnefnda þar sem þeir spila sónötu eftir Mozart á sitt hvort píanóið. Flutningurinn er dásamlegur, tónlistin rennur áfram án fyrirstöðu. Laglínurnar eru mótaðar af smekkvísi og þvílíkum innblæstri að maður hlær og grætur í senn.

Talinn hryðjuverkamaður í jarðarför

Richter spilaði líka í jarðarför Stalíns. Það var sérkennileg uppákoma. Hann valdi að leika jarðarfararmars úr sónötu eftir Beethoven, en ekki tókst betur til en svo að pedallinn á píanóinu var bilaður. Richter greip því nálæga nótnabók til að setja undir pedalinn svo hann virkaði. Þá varð uppi fótur og fit því fólkið í kring hélt að hann væri hryðjuverkamaður að koma fyrir sprengju. Hann var í snarhasti fjarlægður með valdi.

Mikið er af svona sögum í myndinni, og fyrir bragðið upplifir maður ekki bara tónlistina beint í æð, heldur eru frásagnirnar og vangavelturnar um menn og málefni stórskemmtilegar.

Best af öllu er að Richter er hógvær og ávallt heiðarlegur. Hann er líka gagnrýninn á aðra og margar athugasemdir hans um samferðmenn í myndinni eru meinfyndnar og koma oft á óvart. Og samt gagnrýnir hann sjálfan sig harðast og vægir sér aldrei. Það er ekkert humm humm þar.

Niðurstaða:

Frábær heimildarmynd sem tilvalið er að horfa á þegar maður kemst ekki á tónleika.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s