Geisladiskur
5 stjörnur
Tónlist eftir Rameau og Debussy í flutningi Víkings Heiðars Ólafssonar
Deutsche Grammophon
Tónskáldið Jean-Philippe Rameau var maður nokkuð skapstór. Einu sinni var hann í heimsókn hjá konu í íbúð á þriðju hæð. Hún átti hund sem var að gelta. Þetta fór í taugarnar á Rameau, sem greip hundinn og henti honum út um gluggann. Konan æpti af skelfingu: „Monsieur! Af hverju gerðuð þér þetta?“ Rameau svaraði: „Hundurinn var falskur!“
Ef Rameau væri á lífi í dag myndi hann örugglega ekki gera þetta við Víking Heiðar Ólafsson píanóleikara. Geisladiskur með tónlist eftir Rameau og líka Debussy kom út á dögunum. Leikur Víkings er allt annað en falskur og því lítil hætta á að honum verði hent út um glugga. Röð verkanna á diskinum er auk þess listilega samansett.
Samvera þessara tveggja tónskálda á geisladiskinum kann að vekja upp spurningar. Rameau fæddist seint á sautjándu öld, Debussy um miðbik nítjándu aldar. Þeir voru hins vegar báðir franskir, og framsæknir, hvor á sinn hátt. Debussy dáðist mjög að Rameau og síðasta verkið á geisladiskinum, hægi kaflinn úr Images I eftir þann fyrrnefnda, er saminn sérstaklega í anda gamla meistarans.
Tónlist beggja er fremur fínleg. Rameau samdi allskonar lífleg lög sem gnægð er af á diskinum. Hann skrifaði þó einnig dreymandi melódíur á borð við millispilið The Arts and the Hours úr síðustu óperunni sinni, Les Boreades. Víkingur hefur sjálfur útsett það einkar smekklega fyrir píanó. Án efa er þetta einn af hitturunum á diskinum, sérlega grípandi lag sem ekki fæst nóg af. Þarna eru líka húmorísk smáverk. Þau eru full af trillum og skrauti, ógnarhröðum tónarunum og hnyttnum laghendingum, sem allar skína skært í öguðum, en kraftmiklum píanóleiknum.
Debussy er mýkri, og dulúðin í tónlist hans skapar áhrifamikið mótvægi. Í framtíðarsögunni The Stand eftir Stephen King er sena þar sem kona setur á tónlist eftir tónskáldið, en vini hennar, sem er rokkari, finnst það þunnur þrettándi. Ef maður ætlar að hafa klassík á fóninum, hugsar hann, afhverju þá ekki að fara alla leið og hlusta á Beethoven eða Wagner. „Why fuck around?“
Tsjajkovskí var ekki heldur hrifinn af Debussy og fannst hann vinna illa úr hugmyndum sínum. En Debussy gefur í skyn, skáldskapurinn hans er undir yfirborðinu, og það er einmitt það sem gerir tónlist hans svo heillandi. Eitt magnaðasta verkið á diskinum er Sporin í snjónum, prelúdía sem er svo myrk og þungyndisleg, svo full af vonleysi að mann setur hljóðan. Túlkun Víkings þar er fyllilega í stíl verksins. Hún er í senn harðneskjuleg og ljóðræn, svo tónlistin hittir beint í mark.
Geisladiskurinn er nokkuð óvanalegur að því leyti að hann er samsettur eins og lagalisti. Plötur í gamla daga innihéldu yfirleitt heildarflutning eða bara verk eftir eitt tónskáld. Hér er aftur á móti sköpuð áhrifarík heild úr tveimur ólíkum þáttum, og útkoman er furðulega áhrifamikil og ánægjuleg.
Niðurstaða:
Glæsilegur geisladiskur með frábærri spilamennsku og skemmtilegri tónlist.