Hvað á að hlusta á um páskana?

Einu sinni var tónverk sem var svo heilagt að nóturnar af því máttu ekki koma fyrir almannasjónir. Ef einhver dirfðist að skrifa það niður eftir eyranu, var hann settur út af sakramentinu hjá Vatíkaninu. Þetta var Miserere eftir Gregorio Allegri. Textinn er Davíðssálmur nr. 51. Verkið var ávallt flutt í Dymbilviku í Sixtínsku kapellunni. Það mátti hvergi flytja það annars staðar, og ekki á öðrum tímum.

Þegar Mozart var fjórtán ára heyrði hann tónlist Allegris. Hann varð alveg hugfanginn, og skrifaði hana niður eftir minni eftir að heim var komið. Svo fór hann í kapelluna daginn eftir til að heyra hana aftur og fínpússa það sem hann hafði skrifaði. Þetta fréttist, en alls óvænt var Mozart ekki bannfærður. Nei, páfinn Klement 14. dáðist svo að snilld drengsins að hann sæmdi hann orðu!

Dulúð og helgi

Banninu var þó ekki aflétt af tónsmíðinni þá, heldur löngu síðar. Nú er það víðsvegar um netið. Það er tiltölulega einfalt og byggist á sífelldri endurtekningu stutts kafla. Einsöngvarinn syngur laglínu og kórinn svarar aftur og aftur. Dulúð og helgi er yfir tónlistinni, það er eitthvað dáleiðandi við hana, sem lætur mann gleyma þessu hversdagslega, kvíða og áhyggjum. Sjá t.d. hér: https://www.youtube.com/watch?v=3s45XOnYOIw

Leyndardómar verndarengilsins

Annað magnað sem má hlusta á þegar tími gefst til um páskana er eftir Heinrich Ignaz Franz Biber. Hann samdi dásamlegt tónverk sem skiptist í sextán kafla, þar af fimmtán sónötur. Þetta eru hinar svonefndu Rósakranssónötur, en þær eru fyrir fiðlu með ýmiss konar undirleik. Fyrir þá sem ekki vita er rósakransinn talnaband í Kaþólsku kirkjunni og er ætlaður fyrir bænaðikun. Iðkunin samanstendur af sjö bænum, sem eru beðnar misoft. Á meðan eru atburðir úr lífi Krists hugleiddir, en þeir eru kallaðir leyndardómar. Hver sónata Bibers er hugleiðing um einn af þessum leyndardómum.

Sextándi hlutinn, sá síðasti, er fyrir einleiksfiðlu og heitir Verndarengillinn. Hann er mjög viðburðarríkur, en á bak við heyrist þó sama einfalda hendingin aftur og aftur. Hún táknar verndarengilinn, sem sumir trúa að fylgi manni í gegnum lífið, sama á hverju bjátar. Þetta kemur mjög vel fram í tónlistinni, sem er einstaklega falleg og má heyra á eftirfarandi slóð: https://www.youtube.com/watch?v=ZCSEEvEm3uc

Áhersla á huggun

Tónlistarsálumessur eru algengar um páskana, og þær eru allnokkrar. Líklega er sálumessa Mozarts sú þekktasta, en önnur sálumessa er ekki síðri, sú sem Gabriel Fauré samdi í minningu um föður sinn. Hún hefur nokkra sérstöðu að því leyti að hún er ekki eins myrk og margar sálumessur nítjándu aldarinnar. Meiri áhersla er lögð á huggun og sælu handan grafar en hreinsunareld og refsingu.

Djúpstæður friður ríkir í tónlistinni, meira að segja í ólgumeiri köflunum og er fegurð laglínanna og hljómagangsins alveg einstök. Fegursti kaflinn er sá síðasti, sem ber heitið Í Paradís. Kvenraddir bera hann uppi, sem eru svo hrífandi að það er eins og maður sé kominn upp til himna. Lesendur eru þó hvattir til að hlusta á allt verkið og heyra síðasta kaflann í samhengi við heildina; þannig er hann miklu áhrifaríkari.  https://www.youtube.com/watch?v=UnilUPXmipM

Sjaldheyrður Elgar

Annað dásamlegt kórverk er Ave Verum Corpus eftir Edward Elgar. Hann er m.a. þekktastur fyrir sellókonsertinn sinn, en hann samdi þennan stutta sálm snemma á ferlinum. Textinn er latneskur og er frá fjórtándu öld, og var notaður í gamla daga við helgun brauðs á undan altarisgöngu. Laglínan er ótrúlega grípandi og mælir undirritaður sérstaklega með flutningi Kórs Hereford dómkirkjunnar: https://www.youtube.com/watch?v=V1FCaL95SxI           

Tíminn stendur í stað

Að lokum er hér ein ósungin tónsmíð, Fratres eftir Arvo Pärt. Tónmálið er ofur einfalt og byggist á síendurtekinni tónarunu og brotnum hljómum. Andrúmsloftið er dulúðugt; það er eins og tíminn standi kyrr þegar tónlistin er leikin. Verkið er fyrir ýmsar hljóðfærasamsetningar, og á YouTube er frábær upptaka með fiðluleikaranum Gidon Kremer og píanóleikaranum Keith Jarrett: https://www.youtube.com/watch?v=DmUE8b5kAQ4

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s