Streymi kemur sannarlega ekki í staðinn fyrir líf

3 stjörnur

Tónleikaröðin Heima í Hörpu

Ég var einu sinni ráðgjafi RÚV við sjónvarpsupptöku á frumflutningnum á Eddu I eftir Jón Leifs. Það var undarleg upplifun. Tónleikarnir fóru fram í Háskólabíói. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék og gott ef það var ekki einhver kór sem söng. Ég sat inni í sendiferðabíl fyrir utan Háskólabíó, en þaðan var upptökunni stjórnað. Ég átti að lesa hljómsveitarnóturnar á meðan á frumflutningnum stóð og gefa til kynna með nægum fyrirvara hvaða hljóðfæraleikarar myndu spila næst. Þannig myndi upptökustjórinn vita hvert ætti að beina myndavélunum hverju sinni. Lítið fútt er í að sýna málmblásarana geispa á meðan allt er á fullu í fiðlunum, eða sellóleikara að klóra sér í hnakkanum þegar þverflautuleikari spilar innilegt sóló.

Sjónvarpsupptakan heppnaðist sem skyldi og allir fóru glaðir heim. En þegar herlegheitin voru sýnd nokkrum dögum síðar í sjónvarpinu var útkoman vonbrigði. Tónlistin eftir Jón var stórbrotin, en hún naut sín engan veginn þarna. Sífelld breyting á sjónarhorni virkaði truflandi. Það var eins og verkið væri runa af mismunandi einleiksrullum fremur en mögnuð heild. Hljóðið í útsendingunni var líka flatt, styrkleikabrigðin sem eru einkennandi fyrir tónlist Jóns, allar þessar öfgakenndu andstæður – þær bara skiluðu sér ekki í sjónvarpinu úr litlum hátölurum.

Vandræðaleg útkoma

Sama vandamál er til staðar í tónleikaröðinni Heima í Hörpu. Henni hefur verið streymt á netinu á hverjum morgni á virkum dögum um nokkurt skeið. Upptökurnar eru á YouTube.

Auðvitað eru engir lifandi tónleikar haldnir í samkomubanninu, svo framtakið er virðingarvert. Ekkert er heldur upp á tónlistarflutninginn að klaga, en samt er niðurstaðan hálfvandræðaleg. Eyþór Árnason kynnir flytjendur í upphafi, og hann gerir það með máttlausum bröndurum, eins og hann skammist sín fyrir það sem á eftir kemur. Flytjendurnir stíga síðan á sviðið, hneigja sig fyrir tómum áheyrendabekkjum og byrja. Það virkar þvingað.

Hljóðið er að vísu fínt, en stöðug hreyfing myndavélar er truflandi. Greinilegt er að sá sem stjórnar upptökunni óttast það að missa athygli áhorfandans ef hann skiptir ekki í sífellu um sjónarhorn. Það er í sjálfu sér skiljanlegt, sýnilegi þátturinn á klassískum tónleikum er lítt spennandi. Þetta er bara venjulegt fólk í venjulegum fötum; það eru engin sirkusatriði, enginn ber að ofan, enginn að mölva rafmagnsgítar eða fórna hænum. Samt sem áður er síbreytilegt sjónarhornið harla óáhugavert.

Eins og vitleysingur í óleyfi

Ein tilraun þarna á reyndar að gera sjónræna þáttinn meira djúsí. Tónleikarnir voru haldnir í byrjun apríl af dansaranum Felix Urbina Alejandre og Duo Harpverk. Dúóið samanstendur af Frank Aarnink slagverksleikara og Katie Buckley hörpuleikara. Verkin eru ný og eftir íslensk tónskáld. Þau eru innhverf og torræð. Dansarinn stígur við þau framúrstefnulegan dans, og tilgangurinn er greinilega að gera tónlistina sýnilegri og áþreyfanlegri.

Skilar það sér á skjánum? Nei. Heildarmyndin er bjöguð með furðulegum sjónarhornum, svo sem af strengjum hörpunnar í mikilli nálægð. Fyrir bragðið minna þeir helst á kappakstursbrautir. Hver hefur áhuga á að reka nefið upp í hörpustrengi á meðan þeir eru plokkaðir? Það gerir ekkert fyrir tónlistarupplifunina. Verst er að dansarinn fer inn og út úr myndinni, eins og hann sé í aukahlutverki. Hann líkist vitleysingi af götunni sem hefur brotist inn í salinn og stokkið upp á sviðið í algeru leyfisleysi.

Lokum augunum

Flest annað sem komið er á vefinn er þó ásættanlegra. Gaman er t.d. að heyra Kristján Jóhannsson syngja lagið úr Guðföðurnum, eða Hallveigu Rúnarsdóttur flytja Vökuró eftir Jórunni Viðar. Hljóðfæraleikarar úr Sinfóníunni leika líka kammerverk eftir ýmsa höfunda, og þar er spilamennskan í fremstu röð. Það standa sig því allir vel. Af ofangreindum ástæðum er samt best að horfa ekki, heldur bara loka augunum og hlusta. Og vona að við getum senn farið aftur á lifandi tónleika – það er svo miklu, miklu skemmtilegra.

Niðurstaða:

Heima í Hörpu samanstendur af vönduðum tónleikum sem njóta sín ekki almennilega á netinu.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s