Pink Floyd í 60 ár í Eldborg í Hörpu laugardaginn 11. október kl. 17
Eftir Jónas Sen
Það er ekki á hverjum degi sem maður upplifir tónleika þar sem áheyrendur virðast svífa í geimþoku á milli Guðs, gítarstrengja og góðs hljóðkerfis. En þannig var það í Eldborg á laugardaginn. Þar messaði íslenskt rokkprestakall um eilífa dýrð Pink Floyd.
Þetta var ekki aðeins „tribute“. Þetta var trúarathöfn með lasergeislum.
Þegar ég sá The Wall í Gamla bíói einhvern tímann seint á áttunda áratugnum var ég ekkert sérstaklega hrifinn. Hljóðið í fornaldargræjum bíósins var lélegt. Fyrir vikið fór hippaboðskapurinn fyrir ofan garð og neðan hjá mér. „Teachers, leave us kids alone.“ Ha? Heyrðu, ég var nú duglegur námsmaður með góðan píanókennara. Ég var bara algerlega ósammála.
Upplifunin í Eldborginni með hjálp magnaðs hljóðkerfis á laugardaginn var hins vegar allt önnur.
Enn meira testósterón
Þeir Matthías Matthíasson og Magni Ásgeirsson, aðalsöngvarar tónleikanna, hefðu getað látið David Gilmour, gítarleikarann, söngvarann og lagahöfundinn úr Pink Floyd, pissa á sig af hrifningu.
Þeir skiptust á söng eins og tveir forystusauðir í geimnum og reyndu aldrei að herma eftir Gilmour. Þeir einfaldlega urðu hann, í stuttan tíma, í íslenskri útgáfu með enn meira testósteróni.
Gítarinn brennur, en með tilfinningu
Einar Þór Jóhannsson á gítar var ekki síðri. Hann bar það með sér að hafa gert samning við djöfulinn sjálfan. Hver nóta var heit játning: „Ég hef æft þetta sóló í þrjátíu ár og það er sko hluti af mér. Ég ætla EKKi að biðjast afsökunar!“
Að spila Comfortably Numb án þess að verða það sjálfur er auk þess hæfileiki sem fáir búa yfir. Einar náði því auðveldlega.
Rytmísk þyngd og heilög grunnlína
Ólafur Hólm á trommur og Ingimundur Óskarsson á bassa mynduðu hjarta hljómsveitarinnar. Þeir héldu tempóinu svo þétt að jafnvel taktmælir hefði getað fengið minnimáttarkennd.
Þegar bassalínan í Money skall á, fór salurinn að titra. Ekki bara vegna hljóðkerfisins, heldur vegna þess að allir voru orðnir milljarðamæringar í eigin huga.
Tveir hljómborðsenglar
Haraldur V. Sveinbjörnsson og Þorbjörn Sigurðsson sýndu að enginn þarf að sjást til að vera til. Þeir sátu í skugganum og sinntu hljóðheiminum líkt og kirkjuorganistar á LSD. Þeir bjuggu til himinhvelfingu úr synthum og bakröddum sem hefði getað bjargað þjóð frá þunglyndi í febrúar.
Loks verður að nefna bakraddirnar; Ölmu Rut Kristjánsdóttur, Heru Björk Þórhallsdóttur og Írisi Hólm Jónsdóttur. Þær fóru einfaldlega á kostum. Og Steinar Sigurðarson saxófónleikari átti nokkra frábæra spretti.
Sýning sem vissi hvað hún var
Hrósa má tónlistarfólkinu fyrir heiðarleikann. Það þóttist ekki vera Pink Floyd, en elskaði tónlistina samt of mikið til að gera hana að brandara. Allt var stórt, glæsilegt og í botni.
Ljósasýningin og myndefnið á skjánum var svo magnað að hvort tveggja hefði getað sést frá Akureyri. Hljóðið var það áhrifamikið og tært að enginn vissi hvort hann væri í Eldborg eða svífandi yfir The Dark Side of the Moon.
Gæsahúð í fyrsta sinn
Undir lok tónleikanna var ég þó farinn að óttast að allra frægasta lagið yrði ekki flutt, Another Brick In the Wall. Það hefði verið hrikalegt. En nei, sem betur fer! Nú hef ég oft sagst hafa fengið gæsahúð af hrifningu yfir einhverju á tónleikum – en það hefur alltaf bara verið myndlíking. Þar til núna. Þegar téð lag byrjaði fór fiðringur um mig allan. Hvílíkt augnablik!
Áhorfendur spruttu þá á fætur, ekki af kurteisi heldur vegna þess að líkamar þeirra gátu ekki lengur setið kyrrir. Og þeir tóku undir í laginu, fóru í hlutverk barnakórsins sem syngur „We don‘t need no education… teachers! Leave us kids alone!“
Eldborg var kristalskirkja
Þegar allt var yfirstaðið, var líkt og fólk gæti ekki ákveðið hvort það ætti að halda áfram að klappa eða kveikja á kertum. Eldborgin var glitrandi kristalskirkja og hljómsveitin tók á móti lófataki sem minnti meira á þakkargjörð. Hjartað réði för í hvívetna.
Sjaldgæft er að tónleikar sem byggja á fortíðinni nái að verða lifandi í núinu. Oft verður slíkt safn af minningum harla dauðyflislegt. En hér tókst hið ótrúlega: tónlistin andaði, kitlaði og lyfti, án þess að verða að eftirlíkingu.
Pink Floyd er hugarástand
Þeir Matthías, Magni og félagar sýndu að Pink Floyd er ekki aðeins saga – heldur hugarástand sem smellpassar þjóðinni. Ég tala nú ekki um þegar hún hefur gott hljóðkerfi og ljósadýrð og er ekkert að bæla tilfinningarnar.
Maður getur því ekki annað en umorðað titilinn á frægu lagi eftir Pink Floyd og sagt: Shine on, you crazy Íslendingar!
Niðurstaða:
Á tónleikunum gengu nostalgían og nútíminn í hjónaband. Fortíðin fékk að dansa í núinu – og núið gladdist yfir því að vera loksins í lagi.
Það var enginn kaldhæðinn undirtexti, engin tilraun til að gera Floyd „meira rokk“ eða „meira þjóðlegt“. Bara ást, nákvæmni og þessi fallegi íslenskri samhljómur sem gerir það að verkum að 1.800 manns geta andað í sama takti.
Dagskráin var vitnisburður um að góð tónlist eldist ekki, hún lærir bara að lifa af nýjar kynslóðir. Þetta voru magnaðir tónleikar og óviðjafnanleg skemmtun.