34.-50. Passíusálmur Hallgríms Péturssonar. Tónlist eftir Megas í fjölbreyttum útsetningum. Flytjendur: Megas, Margrét Kristín Blöndal, Söngfjelagið og Píslarsveitin undir listrænni stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar. Föstudagurinn langi í Grafarvogskirkju.
5 stjörnur
Mörgum þykir sjálfsagt föstudagurinn langi óttalega leiðinlegur. Allt er lokað, sumar skemmtanir eru ólöglegar vegna strangtrúarstefnu sem þreifst hér um aldir. Það er ástæðan fyrir því að samtökin Vantrú efna til bingós á Austurvelli á föstudaginn langa. Þannig mótmæla þau borgaralega lögum um helgidagafrið, sem má rekja til „óeðlilegs sambands ríkis og kirkju“ eins og það er orðað hjá þeim.
Halda má tónleika þennan dag, en dansleikir og spil eru ekki leyfð. Þetta hlýtur að þýða að tónleikar þar sem fólk stendur upp og dansar, eru á mörkum þess að vera lögbrot. Ég vil því ákæra tónlistarfólkið í Grafarvogskirkju á föstudaginn langa! Þar var fluttur hluti Passíusálma Hallgríms Péturssonar sem Megas hefur samið tónlist við. Kórinn Söngfjelagið dansaði og dillaði sér undir tónlistinni, sérstaklega í einum sálminum. Lögreglan hefði átt að vera á staðnum.
Að öllu gamni slepptu, þá voru tónleikarnir stórskemmtilegir. Einhverjum kann að finnast að rokktónlist sé ekki við hæfi þegar Passíusálmarnir eru fluttir, hún sé of alþýðleg. En þá verður að hafa í huga að fólkið í kringum Krist var margt hvert úrhrök þjóðfélagsins. Þetta voru holdsveikisjúklingar, hórur og tollheimtumenn. Ef það er einhver tónlist sem hæfir Passíusálmunum, þá er það einmitt sú sem Megas hefur samið. Hann syngur gjarnan um fólk sem orðið hefur utanvelta í samfélaginu. Þannig upphefur hann þá sem minna mega sín og veitir ljósi inn í dimmustu afkima lífsins.
Þetta voru þriðju og síðust tónleikarnir þar sem allir Passíusálmar Megasar voru fluttir, sumir textarnir reyndar í styttri útgáfu. Því miður missti ég af hinum tveimur tónleikunum, sem voru fyrr í mánuðinum. Þar kom við sögu fjölbreytt teymi listamanna á borð við Caput hópinn og Moses Hightower. Að þessu sinni var það Margrét Kristín Blöndal sem söng með Megasi (hún var einnig í aðalhlutverki á fyrri tónleikunum), ennfremur hið fyrrnefnda Söngfjelag. Auk þess spilaði hrynsveit, sem samanstóð af nokkrum valinkunnum hljóðfæraleikurum, m.a. Kjartani Valdimarssyni, Einari Scheving og Kristni Árnasyni. Þarna var líka strengjakvartett og öllu saman stjórnaði Hilmar Örn Agnarsson. Það gerði hann með tilþrifum.
Útsetningarnar voru eftir ólíkan hóp tónlistarfólks og sýndu mismunandi hliðar á tónlist Megasar. Sonur hans, Þórður Magnússon átti nokkrar alvörugefnustu útsetningarnar. Þær komu ágætlega út, enda lög Megasar einföld og eru því teygjanleg í ýmsar áttir.
Það væri að æra óstöðugan að telja upp alla sem útsettu lögin á tónleikunum, en ég verð að nefna þann sem var hvað mest áberandi, Harald Vigni Sveinbjörnsson. Útgáfur hans á nokkrum lögum voru blátt áfram og hnyttnar, sniðugar án þess að hann færi með tónlistina í einhverjar nýjar víddir. Útsetningarnar voru þægilegar áheyrnar.
Ein sú kraftmesta var eftir listræna stjórnandann, Hilmar Örn sem fyrr var nefndur. Hún var um teiknin sem urðu við dauða Krists. Í sálminum segir frá því að musteristjald hafi rifnað í tvennt. Kórinn lék tjaldið, sumir dönsuðu til hægri, aðrir til vinstri, þannig var kórinn eins og tjald sem rifnaði í sundur. Það var tilkomumikið og vakti gríðarlegan fögnuð meðal áheyrenda.
Allur flutningurinn var til fyrirmyndar. Kórinn söng líflega og með auðfundinni einlægni. Hljóðfæraleikararnir voru samtaka og öruggir. Margrét Kristín söng með unaðslega bjartri röddu. Hún og hin hrjúfa rödd Megasar mynduðu kröftugar andstæður. Megas sjálfur var stórskemmtilegur, sjarmerandi og geislandi af húmor. En það var líka angurværð og tregi í söng hans og Margrétar. Rokktónlist er ekkert endilega bara á yfirborðinu. Þarna var svo margt sem var ótrúlega fagurt. Tónlistin var einfaldlega dásamleg, þrungin hlýju og kærleika, en líka sorg. Hún var full af ljósi, en einnig skuggum. Ég vona að upptökur með tónleikunum þremur verði aðgengilegar á geisladiskum sem fyrst. Þetta var stórbrotinn listviðburður sem verður að varðveita.
Niðurstaða:
Magnaðir tónleikar sem sýndu ólíkar hliðar á Megasi.