Notaleg stund í Kristskirkju

Orgelandakt, hádegistónleikaröð. Douglas A. Brotchie lék verk eftir Böhm, Corigliano og Kurtág. Miðvikudagur 9. júlí.

4 stjörnur

Orgelandakt er nafnið á tónleikaröð sem haldin er árlega í Landkotskirkju yfir sumartímann. Tónleikarnir eru á miðvikudögum í hádeginu og taka hálftíma. Eins og nafn raðarinnar ber með sér er um einskonar hugleiðslustund að ræða, sem er leidd af presti, séra Jakobi Rolland. Þetta eru því meira en bara venjulegir hádegistónleikar.

​Ég hef verið á tónleikum í þessari röð þar sem ekki hefur verið nægilega hugað að því að tónlistin passi inn í ramma andaktar. En sú var ekki raunin nú. Tónleikarnir byrjuðu á fremur glaðlegu verki, partítu eftir Georg Böhm (Jesu, du bist allzu schöne), en svo varð tónlistin innhverfari og hentaði því prýðilega til íhugunar.

​Partítan eftir Böhm var fallega leikin af organistanum Douglas A. Brotchie, en hann er Skoti og hefur verið búsettur hér í 30 ár. Hljómurinn í orgelinu var mjúkur vel framan af, en svo tók meiri glans við. Brotchie spilaði skýrt og yfirvegað, allar nótur voru á sínum stað. Takturinn var jafn og agaður, jafnvægi á milli radda var hæfilegt og hnitmiðað. Hraðar nótnastrófur voru tærar og nákvæmar. Flutningurinn var því sannfærandi. Það var skemmtileg stígandi í túlkuninni, allt frá mýktinni í byrjun til skærari áferðar undir lokin. Óneitanlega var hápunkturinn flottur.

​Hitt á efnisskránni kom líka ágætlega út. Hið fyrra var O God of Love, umritun úr óperunni Ghosts of Versailles eftir John Corigliano. Þetta er samtímatónlist og talsvert annar bragur á henni en barokkverkið sem við heyrðum fyrst. Þarna var hunagssæt laglína skreytt sérlega safaríkum, en jafnframt þokukenndum hljómum. Það var glæsilega útfært af Brotchie. Laglínan og hljómarnir voru fagurlega bundnir, heildarhljómurinn var trúverðugur og unaðslegur áheyrnar. Útkoman var nánast ekki af þessum heimi.

​Í restina lék Brotchie fjögur smástykki úr Jatekok VI, þ.e. sjötta bindinu úr „leikjum“ eftir ungverska samtímatónskáldið György Kurtág. Eftir því sem ég best veit eru stykkin upphaflega samin fyrir píanó, eða píanódúett og svipa á margan hátt til Microcosmos eftir Bartók. Brotchie lék verkin með réttum dramatískum tilburðum, af tæknilegu öryggi og fagmennsku. Vissulega var tónlistin ekkert sérlega aðgengileg, en hún var innhverf og hóflega löng, sem átti sérlega vel við hér. Þetta var alveg rétti endirinn á dagskránni.

​Ég hvet fólk til að setjast inn í Kristskirkju í hádeginu á miðvikudögum og slaka á í miðju annríki dagsins.

Niðurstaða:

Fallegur orgelleikur, vel valin efnisskrá. ​

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s