Tafl og fagurt asmakast

Listhópurinn Errata Collective hélt sína fyrstu tónleika í Björtu loftum í Hörpu föstudaginn 18. júlí.

4 stjörnur

Ég hélt að ég þekkti hvern krók og kima í Hörpunni. En í Björtuloft hafði ég aldrei komið. Ég vissi ekki einu sinni að þau væru til!  Þetta er staður þar sem er hægt að halda tónleika. Björtuloft eru á fimmtu hæð í Hörpu, fremur lítið rými með borðum, stólum og bar. Útsýnið er stórkostlegt, maður sér yfir höfnina til vesturs og norðurs. Á föstudagskvöldið voru þarna tónleikar nýstofnaðs listhóps sem heitir Errata Collective. Frumflutt var tónlist eftir náunga sem, rétt eins og Björtuloft, ég kannaðist ekkert við. En ég á ekki eftir að gleyma tónleikunum í bráð.

Ef ekki nema bara fyrir upphafsverkið. Það hét 1972 og var eftir Halldór Smárason. Titillinn vísaði til heimsmeistaraeinvígisins í skák fyrir rúmum fjörutíu árum. Verkið fólst í því að tveir karlar stóðu við borð og tefldu skák. Míkrafónum hafði verið komið fyrir við taflborðið, þannig að vel heyrðist þegar mennirnir voru dregnir eftir borðinu. Tifið í skákklukkunni barst líka glögglega um salinn. Er ýtt var á takkana á klukkunni skilaði það sér í háværum drunum úr hátölurunum. Ýmsir atburðir voru túlkaðir með örstuttum slagverksleik og ávallt var stutt á nótu á hljómborði þegar maður var drepinn. Útkoman var skemmtilega framandi, uppmagnað klukknatifið var áleitið. Það var stöðugt og rólegt; í fullkominni andstöðu við spennuna í taflinu, sem varð sífellt áþreyfanlegri. Sem tónverk var þetta smart.

Frank Aarnink slagverksleikari og Finnur nokkur Karlsson tefldu. Frank kallar ekki allt ömmu sína, ég hef hlustað á hann flytja hinar undarlegustu tónsmíðar. Sérstaklega minnistæðir eru tónleikar þar sem hann barði skjalatösku af ótrúlegri kúnst. En ég held að þetta hljóti að vera með því skrítnasta sem ég hef séð hann í.

Finnur vann skákina, því Frank féll á tíma. En Frank var alltaf að spila á slagverkið á eftir hverjum leik, svo hann hafði í rauninni minni tíma en Finnur strax frá byrjun.

Önnur tónsmíð eftir Halldór Smárason, Pólypsar, var sömuleiðis frábær. Hún var fyrir uppmagnaða einleiksfiðlu og var spiluð af Unu Sveinbjarnardóttur. Megnið af tímanum renndi Una boganum upp og niður strengina, og lét þannig braka í fiðlunni. Hún andaði líka hátt með. Fiðluleikurinn hljómaði eins og asmasjúklingur í slæmu kasti. En undir lokin breyttist andnauðin í forkunnarfagran söng. Una spilaði meistaralega vel, jafnvel svona rólega tónlist lék hún af einbeittum ákafa sem er svo einkennandi fyrir hana. Þetta var mögnuð upplifun.

Hin verkin á tónleikunum voru með hefðbundnara yfirbragði, en byggðust engu að síður á úthugsari fagurfræði sem var mjög sannfærandi. Þau voru flutt af Clöru Stengaard Hansen mezzósópran, Maríu Ösp Ómarsdóttur flautuleikara, Matthíasi Ingibergi Sigurðssyni klarinettuleikara og þeim Unu og Frank. Verkin voru eftir áðurnefndan Finn Karlsson, Pettri Ekman og Hauk Þór Harðarson. Allar tónsmíðarnar voru kliðmjúkar og seiðandi, flutningurinn var líka grípandi og tæknilega nákvæmur. Það verður spennandi að heyra meira eftir þessi bráðefnilegu tónskáld.

Niðurstaða:

Flott tónverk, flottur flutningur.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s