Kristinn hefur átt betri daga

Sönglög um svífandi fugla: Lög eftir Þorvald Gylfason við ljóð eftir Kristján Hreinsson. Flytjendur voru Kristinn Sigmundsson, Jónas Ingimundarson og Bryndís Halla Gylfadóttir.

2 stjörnur

Menn þurfa ekki að vera starfandi tónlistarmenn til að vera góðir lagahöfundar. Sigvaldi Kaldalóns var læknir en samdi samt ódauðlegar söngperlur. Þorvaldur Gylfason er prófessor í hagfræði en hann sinnir líka tónsmíðum. Þær hafa ekki verið áberandi í tónlistarlífinu, en ég heyrði þó heillandi lag eftir hann á Menningarnótt í fyrra. Á sunnudaginn var blés hann til tónleika í Salnum í Kópavogi. Þá fluttu Kristinn Sigmundsson söngvari og Jónas Ingimundarson píanóleikari, ásamt Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara hvorki meira né minna en fjórtán lög eftir hann.

Yfirskrift tónleikanna var Sönglög um svífandi fugla. Lögin voru við ljóð eftir Kristján Hreinsson. Ljóðin eru vangaveltur um lífið og kærleikann sem bindur allt saman. Eins og titillinn ber með sér eru fuglar útgangspunkturinn. Þeir eru sennilega líking fyrir sálina og hugann sem flýgur um tilveruna, sér hana út frá ólíkum sjónarhornum og í mismunandi samhengi. Stemningin í ljóðunum er rómantísk og tilfinningaþrungin, lifandi og kraftmikil.

Heldur fannst mér laglínur Þorvalds daufar í samanburðinum. Þær voru vissulega fallegar, en aldrei þannig að þær væru beinlínis grípandi. Ef til vill má kenna útsetningum Þóris Baldurssonar um, en þær voru fremur tilþrifalitlar. Úsetninganar voru þannig að meðleikurinn var í höndum píanó- og sellóleikara. Það var dálítið knúsað. Raddir hljóðfæranna beggja voru óþarflega oft á svipuðum stöðum á tónsviðinu. Þetta myndaði þykkan hljóm sem hálfpartinn yfirgnæfði rödd Kristins. Sellóið var aukinheldur býsna sterkt í sjálfu sér. Bryndís Halla virkaði eins og hún væri í samkeppni við söngröddina. Heildarhljómurinn var ekki ánægjulegur áheyrnar.

Kristinn hefur átt betri daga. Hann virtist ekki sannfærður um það sem hann var að gera. Söngurinn var lengst af fremur flatur, þótt Kristinn reyndi af og til að glæða lífi í tónlistina.

Tónleikadagskráin var einkennileg að því leyti að ljóðskáldið sat á sviðinu og sagði frá hverju ljóði áður en það var flutt. Þetta var misráðið. Betra hefði verið að leyfa tónlistinni og ljóðunum sjálfum að tala. Inngangur skáldsins að hverju lagi truflaði stemninguna. Það var alltaf verið að klippa á rauða þráðinn, ef svo má að orði komast. Maður komst aldrei almennilega inn í andrúmsloftið sem lá til grundvallar skáldskapnum og tónlistinni. Of mikið var verið að útskýra hvað við áheyrendur ÁTTUM að upplifa.

Útkoman var ansi klén. Það er synd því ég held að Þorvaldur hafi prýðilega hæfileika sem lagahöfundur. Eins og fyrr hefur komið fram kann hann að semja laglínur sem eru áheyrilegar og fallegar. En það er ekki nóg. Útsetningarnar þurfa að vera djarfari og hugmyndaríkari, og ég held að best væri að sleppa sellóinu næst.

Niðurstaða:

Áheyrileg en daufleg tónlist sem var auk þess ekki nógu skemmtilega útsett.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s