Steraflaut og stórbrotin sinfónía

Verk eftir Lindberg, Rodrigo og Sibelius á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimmtudaginn 12. mars í Eldborg í Hörpu. Stjórnandi: Anna-Maria Helsing. Einleikari: Áshildur Haraldsdóttir.

4 stjörnur

Til eru flautukonsertar. En það sem spænska tónskáldið Joaquín Rodrigo (1901-1999) samdi er ekkert annað en flautukonsert á sterum. Hann var á dagskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Flautunóturnar í fyrsta kaflanum voru svo margar að það var eins og að koma inn í gæludýrabúð þar sem heill her af kanarífuglum æpir hver á annan.

Konsertinn er gríðarlega erfiður. Mikla tækni og úthald þarf til að spila svona margar nótur á slíkum hraða. Áshildur Haraldsdóttir var í einleikshlutverkinu og stóð sig með eindæmum vel. Öll brjálæðislegu tónahlaupin voru fullkomlega af hendi leyst. Nótnarunurnar voru jafnar og nákvæmar. Áshildur var á harðaspretti allan fyrsta kaflann, en hún blés ekki úr nös. Það er afrek.

Millikaflinn var rólegri og yfirvegaðri. Þar tóku við himneskar laglínur sem Áshildur spilaði af einstökum þokka. Og stríðnislegur síðasti kaflinn var skemmtilegur í meðförum hennar, lifandi og kraftmikill.

Hljómsveitin lék prýðilega undir stjórn Önnu-Maríu Helsing. Bendingar hennar voru skýrar, enda var hljómsveitin samtaka og yfirleitt örugg á sínu.

Tvö önnur verk voru á dagskránni. Hið fyrra var EXPO frá árinu 2009 eftir Magnus Lindberg, sem er finnskur. EXPO er stytting á orðinu exposition, sem er framsaga, fyrsti hlutinn í upphafskafla sónötu. Þar eru aðal tónhugmyndirnar settar fram, áður en þær fara í svokallaða úrvinnslu, þ.e.a.s. þróun og umbreytingu. Verk Lindbergs var fremur stutt og það var ekki mikil framvinda í því, engin atburðarás. Hugmyndum var slengt framan í áheyrandann, nánast allar í einu, þær voru margbrotnar og þéttar, stemningin var strax ólgandi og áköf. Tónlistin var grípandi, krafturinn var yfirgengilegur. Hljómsveitin spilaði prýðilega, túlkunin var markviss og full af ástríðu.

Svipaða sögu er að segja um fyrstu sinfóníu Sibeliusar, sem var leikin eftir hlé. Hinn seiðmagnaði annar kafli var draumfagur og hástemmdur, og lokahnykkurinn í síðasta kaflanum var alsælukenndur. Í heild var sinfónían tignarleg og stórbrotin í meðförum hljómsveitarinnar. Tæknilega séð spilaði hún afburðavel, hver einasta hljóðfæragrúppa var með sitt á hreinu og samhljómurinn var þéttur og flottur. Þetta var magnað.

Niðurstaða:

Frábær einleikur Áshildar Haraldsdóttur í konsert Rodrigos og fyrsta sinfónía Sibleiusar var stórfengleg.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s