Tónskáld og morðingi geldings

Elfa Rún Kristinsdóttir og Elina Albach fluttu blandaða dagskrá á Sumartónleikum í Skálholti laugardaginn 11. júlí.

4 stjörnur

Sagt er að tónskáldið G. A. Pandolfi Mealli hafi drepið gelding. Geldingar voru fyrirferðamiklir í tónlistarlífinu á sautjándu öldinni. Þá þótti fínt að vera góður söngvar með engin eistu. Til fróðleiks má geta að örlítil prósenta karlmanna verður aldrei kynþroska. Þeir eru kallaðir náttúrulegir geldingar. Einn slíkur er söngvari sem heitir Radu Marian. Frábært sýnishorn með söng hans má finna á YouTube undir heitinu „Radu Marian, Handel Lascia Ch’io Pianga.“ Röddin er furðuleg, hún er sópran, en samt allt öðruvísi en konu- eða barnarödd. Hún gefur manni hugmynd um hvernig geldingar fyrri alda hljómuðu.

​Aftur að Mealli. Hann stakk af frá ódæðinu og flúði til Frakklands og svo til Spánar, þar sem hann fékk fína stöðu. Eiginlega ekkert eftir hann hefur varðveist, nema sónötur fyrir fiðlu og sembal. Það er mikil synd, því ef marka má það sem Elfa Rún Kristinsdóttir fiðluleikari og Elina Albach semballeikari fluttu í Skálholti á laugardaginn, þá var Mealli frábært tónskáld. Tónlistin hans er fallega dreymandi, það er frelsi yfir henni, frumleiki sem maður á ekki að venjast frá þessu tímabili tónlistarsögunnar.  

​Elfa Rún og Albach léku þrjár sónötur eftir tónskáldið. Semballeikurinn var frábær, tær og skýr, jafn og yfirvegaður. Fiðluleikurinn var líka magnaður, en þó mátti finna að nokkuð sárum tón. Ef til vill var hljóðfærinu sjálfu þar um að kenna. En öll hlaup voru nákvæm og andrúmsloftið í túlkuninni var sannfærandi, fullt af innlifun og andakt, en líka fjöri þegar við átti.

​Fleira en tónlist morðingjans var á dagskránni á tónleikunum. Örstutt einleiksverk fyrir fiðlu eftir Salvatore Sciarrino (f. 1947) var fallega spilað. Traumverk nr. 2 og 5 úr bók II eftir James Dillon (f. 1950) voru jafnframt grípandi. Leikurinn var einbeittur og þráhyggjukenndur, kraftmikill og lifandi. Tvær sónötur eftir Bach (BWV 1015 og 1023) voru einnig flottar, og Continuum fyrir orgel eftir Ligeti var skemmtilegur inngangur að þeirri síðari.

​Tónleikarnir voru sniðuglega samsettir. Samtímatónsmíðarnar og gömlu verkin eftir Mealli og Bach mynduðu áhrifamiklar andstæður. Hástemmd fegurð barokktímabilsins var enn meira hrífandi við hliðina á hrjúfri nútímatónlistinni. Myrkrið þar var sömuleiðis ennþá kröftugra við hliðina á ljósinu úr fortíðinni. Meira svona, takk.

Niðurstaða

Glæsilegur flutningur og smekklega samansett efnisskrá.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s