Yin og yang á djasstónleikum

Píanótónleikar

4 stjörnur

Sunna Gunnlaugs og Julia Hülsmann léku eigin tónsmíðar á tvo flygla.

Silfurberg í Hörpu

föstudaginn 12. ágúst

Í svipinn man ég ekki eftir að hafa sótt djasstónleika þar sem spilað hefur verið á tvö píanó í einu. Því var spennandi að fara á tónleika með píanóleikurunum Sunnu Gunnlaugs og Juliu Hülsmann á Djasshátíð Reykjavíkur. Furðulegt nokk þá voru þeir haldnir í Silfurbergi í Hörpu. Maður spurði sig afhverju. Silfurberg er ekki góður salur fyrir órafmagnaða tónleika. Tónninn í flyglunum var líka grár og flatur, endurómunin var svo lítil. Það var synd því samspil píanóleikaranna var eins og best verður á kosið. Tónlistin var auk þess ákaflega skemmtileg.

Píanóið er ásláttarhljóðfæri, hljómurinn í því er eðlilega hvass. Þegar tveir píanóleikarar spila þarf ekki mikla ónákvæmni til að þeir virki áberandi ósamtaka. En þær Julia og Sunna voru einstaklega samheldnar. Leikstíllinn var mjög svipaður, mjúkur og fínlegur. Skemmtilegt var þó hve þær botnuðu hvor aðra, ef svo má segja. Það sem upp á vantaði öðum megin var bætt upp hinum megin. Ef önnur spilaði hljóma, lék hin sér að laglínum og tónahlaupum. Heildin var því sérlega sannfærandi. Manni datt í hug hið kínverska yin og yang, sem táknar svart og hvítt, jákvætt og neikvætt, ljós og myrkur. Meira að segja uppstilling flyglanna minnti á yin og yang.

Tónlistarlega séð var dagskráin unaður áheyrnar. Með örfáum undantekningum var ýmist flutt músík eftir Juliu eða Sunnu. Þær eru ólík tónskáld. Sunna var ljóðrænni og rómantískri, það var heillandi flæði í tónlist hennar, létt nostalgía sem var einkar aðlaðandi. Laglínurnar voru grípandi. Sumt bar jafnvel keim af Keith Jarret.

Verk Juliu voru módernískari, grunnhugmyndin var stundum bara eitt tónbil sem fór í gegnum allskonar umbreytingar. Hljómarnir voru ómstríðari. Svo virtist sem Julia hefði sérstakt dálæti á tvíundum (þ.e. tónum sem liggja hlið við hlið á hljómborðinu). Maður heyrði tilvísanir í verk Debussys. Athyglisverður ferskleiki sveif ávallt yfir vötnunum.

Í það heila var dagskráin full af innblæstri og skáldskap, fjöri og innileika, tilraunum og rómantík. Ef hljómburðurinn hefði verið almennilegur hefði upplifunin verið dásemd.

Niðurstaða:

Tónleikarnir liðu fyrir lélegan hljómburð, en samspilið var flott og tónlistin mögnuð.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s