Kraftaverkin í Hallgrímskirkju

Kórtónleikar

4 stjörnur

Verk eftir Charpentier og Bach. Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju lék, Mótettukór kikrjunnar söng. Einsöngvarar: Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Oddur A. Jónsson, Auður Guðjohnsen, Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir og Guðmundur Vignir Karlsson.

Hallgrímskirkja

laugardaginn 29. október

Ég heyrði brandara um daginn: Hvað er líkt með Jesú og unglingum? Jú, þeir taka ekki almennilega til starfa fyrr en um þrítugt og þegar þeir gera eitthvað, þá er það kraftaverk.

Um þessar mundir er haldið upp á 30 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju, en ólíkt unglingnum er starfsemin þar ekki fyrst að byrja núna. Tónlistarlífið í kirkjunni hefur alla tíð verið fjölbreytt og afar vandað. Maður á margar góðar minningar af tónleikum í henni.

Mér er sérstaklega minnistætt þegar orgelkonsert Jóns Leifs var frumfluttur í kirkjunni fyrir um fimmtán árum síðan. Sprengikrafturinn í verkinu var ótrúlegur. Þegar fólk gekk út í anddyrið í hlénu á eftir, var þar allt á floti. Pípulagnir höfðu gefið sig á meðan orgelpípurnar voru þandar til hins ítrasta. Tónleikagestir gengu á vatni, sem var skemmtilega táknrænt.

Á tímabili var Hallgrímskirkja gagnrýnd fyrir of mikinn hljómburð. Einhver sagði að það væri í lagi að koma of seint á tónleika í kirkjunni; maður heyrði samt fyrstu tónana. Það er nokkuð til í þessu. Hallgrímskirkja sker sig þó ekki frá öðrum, sambærilegum kirkjum þar sem ætíð er ríkulegt bergmál. Hörður Áskelsson, sá magnaði hæfileikamaður og tónlistarstjóri kirkjunnar, hefur líka lagað verkefnavalið að ágætlega að endurómuninni, svo hún kemur ekki að sök.

Á laugardagskvöldið voru haldnir tónleikar í kirkjunni til að fagna afmælinu. Dagskráin var lífleg, hún samanstóð af barokkmúsík sem var í senn hátíðleg og full af gleði. Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju undir stjórn Harðar flutti fyrst fjörugan mars, Marche de Triomphe et Second Air de Trompettes eftir Charpentier. Þar var leikið á barokkhljóðfæri, þ.e. eldri gerðir nútímahljóðfæri. Þverflauturnar voru úr tré og eitt hornið leit úr eins og lakkrísrúlla. Mann langaði hálfpartinn til að fá sér bita! Hljómurinn í sveitinni var léttari og mildari en í nútímahljómsveit, sem jók á gleðina í tónmálinu. Leikurinn var akkúrat, nákvæmur og samtaka, túlkunin spennandi og fallega blátt áfram.

Næst á dagskrá var Messa í F-dúr BWV 233 eftir Bach. Hún er miklu styttri en h-moll messan, sem er eitt voldugasta verk tónbókmenntanna. Engu að síður er hún glæsileg og tilkomumikil og flutningurinn á tónleikunum heppnaðist prýðilega. Oddur A. Jónsson var í bassahlutverkinu og gerði það af stakri fagmennsku. Röddin var kröftug og sérlega heillandi. Sömu sögu er að segja um Sigríði Ósk Kristjánsdóttur mezzósópran, sem verður betri og betri með hverjum tónleikum. Helst mátti finna að altsöng Auðar Guðjohnsen, sem var dálítið litlaus og ekki nægilega sterkur í samanburði við hina einsöngvarana.

Hér steig Mótettukór kirkjunnar fram og söng af hrífandi einlægni og tæknilegu öryggi. Það gerði hann líka í lokaverkinu á efnisskránni, Te Deum í D-dúr eftir Charpentier. Textinn er lofsöngur frá fjórðu öld og tónlistin er einstaklega vel heppnuð. Hún er litrík og fjölbreytileg, full af grípandi laglínum. Upphafið þekkja allir, það er Eurovision-stefið svokallaða. Hljómsveitin spilaði af festu og áðurnefndir einsöngvarar voru með allt á hreinu; Auður hljómaði betur hér. Í hópinn bættust  Guðmundur Vignir Karlsson tenór og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sópran sem sungu afar fallega. Þetta var góð stund.

Niðurstaða:

Líflegir afmælistónleikar þar sem nánast allt var fullkomið.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s