Hárbeitt spilamennska, misjöfn dagskrá

3 stjörnur

Verk eftir Finn Karlsson, Hauk Þór Harðarson, Atla Heimi Sveinsson, Penderecki og Bach. Flytjandi: Stokkvartettinn Siggi.

Norðurljós í Hörpu

sunnudagurinn 27. nóvember

Halda mætti að Strokkvartettinn Siggi sé einhverskonar grínhópur. Nafnið er svo kæruleysislegt, annað en maður á að venjast úr heimi kammertónlistar á Íslandi. En Sigga er full alvara með tilvist sinni! Tónleikar hópsins í Norðurljósum á sunnudaginn byrjuðu líka vel. Fyrst á efnisskránni var prýðileg tónsmíð eftir Finn Karlsson úr Errata hópnum sem bar nafnið Hrafnaþing. Hún var í þremur köflum. Upphafið var íhugult og leitandi, en smám saman óx tónlistinni ásmeginn. Ferskleiki var í tónmálinu, það var vissulega afstrakt og ómstrítt, en innra samræmi var ávallt ríkjandi. Rödd tónskáldsins var heiðarleg og einlæg, útkoman hrífandi falleg.

Hljóðfæraleikurinn var framúrskarandi, hver hljóðfæraleikari var með allt sitt á hreinu. Spilamennskan var einbeitt og vel ígrunduð. Siggi samanstendur af valinkunnum hljóðfæraleikurum, Unu Sveinbjarnardóttur, Helgu Þóru Björgvinsdóttur, Þórunni Ósk Marinósdóttur og Sigurði Bjarkasyni. Samspil þeirra var hárnákvæmt og öruggt.

Efnisskráin var skemmtileg blanda af gömlu og nýju. Nútímatónlistin var þó í öndvegi, en hún var fleyguð með tveimur fúgum úr Fúgulistinni svokölluðu eftir Bach. Þær sköpuðu einkar heillandi mótvægi við andrúmsloft tilraunamennsku og byltingu hefðbundinna forma. Fúgurnar voru meistaralega spilaðar, forneskjuleg stemningin var útfærð af smekkvísi. Þetta var tímalaus snilld.

Eftir fyrri fúguna virkaði Strengjakvartett nr. 1 eftir Penderecki frá árinu 1960 stórfurðulegur til að byrja með. Tónlistin samanstóð af taugaveikluðu strengjaplokki. En svo umbreyttist það í þrúgandi dulúð ofurveikra hljóma sem voru á mörkum hins heyranlega. Andstæðurnar voru áhrifamiklar og Siggi kom þeim áreynslulaust til skila.

Heldur syrti í álinn eftir hlé. Fúga eftir Bach var þó flott, en nýju verkin voru ekki að gera sig. Hið fyrra var Through the Whole Fabric of my Being eftir Hauk Þór Harðarson úr Errata. Það byggðist nánast eingöngu á ofurveiku strengjaglissi, þ.e. fingrum var rent hægt eftir strengjunum. Glissið hljómaði eins og geispi; það var eins og fjórmenningarnir væru geispandi hver ofan í annan. Annað gerðist ekki í tónlistinni, sem var býsna slappt.

Strengjakvartett nr. 3 eftir Atla Heimi Sveinsson kom ekki heldur vel út. Hann var í sex köflum. Þeir voru sundurlausir innbyrðis, en ekki bara það: Tónlistin náði aldrei flugi, grunnhugmyndirnar voru sjaldnast meira en klisjur. Úrvinnslan var máttlítil, heildarmyndin veik. Ljóð eftir Goethe sem Tui Hirv sópran söng í einum kaflanum var eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Það gerði ekkert fyrir verkið. Þetta kom á óvart; Atli er jú mikilhæft tónskáld sem hefur samið ótalmargt áhugavert og spennandi. Verkið nú var því  töluverð vonbrigði.

Niðurstaða:

Tónleikarnir byrjuðu vel en enduðu illa.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s