Baráttan um ódauðleikann

Kammertónleikar

3 stjörnur

Verk eftir Farrenc og Mendelssohn á Kammermúsíkklúbbnum. Flytjendur: Gréta Guðnadóttir, Guðrún Þórarinsdóttir, Jónína Auður Hilmarsdóttir, Bryndís Björgvinsdóttir, Þórir Jóhansson og Ingunn Hildur Hauksdóttir.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 21. janúar

Tilraunir til að vekja áhugann á gleymdum tónskáldum í gegnum tíðina hafa sjaldnar en ekki heppnast illa. Sannarlega var samin ógrynni af tónlist í gamla daga, rétt eins og í dag, og því er skiljanlegt að menn séu forvitnir um fortíðina. Oftar en ekki hefur þó sagan dæmt megnið af þessari tónlist úr leik, og ekki að ástæðulausu. Hún er einfaldlega ekki merkileg.

Eitt af þessum gleymdu tónskáldum sem kastljósinu hefur verið beint að undanfarið er Louise Farrenc. Hún var frönsk og var uppi á 19. öldinni. Auk þess að vera tónskáld var hún gríðarlega fær píanóleikari. Í fyllingu tímans var henni boðin staða prófessors í píanóleik við Tónlistarháskólann í París. Þar naut hún mikillar virðingar, en þó ekki nægilega til þess að hún fengi laun á við karlmann. Í tíu ár þurfti hún að berjast fyrir jafnrétti, og tókst það á endanum.

Verk eftir Farrenc var flutt á tónleikum Kammermúsíkklúbbsins á sunnudaginn. Ef marka má þessa tilteknu tónlist, og líka þá sem er að finna á YouTube, þá er ekki sennilegt að Farrenc hljóti sömu örlög og Bach. Músíkin er óttalegt þunnildi. Laglínurnar eru klisjukenndar og útvinnslu þeirra skortir allan frumleika. Þetta er tónlist sem fer inn um eitt og út um hitt.

Flutningurinn á kvintett fyrir píanó, selló, fiðlu, víólu og kontrabassa var þó oftast góður. Samspilið var nákvæmt og túlkunin full af ákefð. Engu að síður var leikurinn ekki gallalaus. Sumar sólóstrófur strengjahljóðfæranna voru ekki hreinar og hraðar nótur úr píanóinu runnu of mikið saman. Píanóleikurinn var samt glæsilegur, en í hljómburði Norðurljósa var pedalnotkunin býsna mikil. Hljómurinn í píanóinu er mjög mjúkur í sjálfu sér, og þarf lítið til að hann verði óskýr.

Hin tónsmíðin á efnisskránni var sextett fyrir fiðlu, tvær víólur, selló, kontrabassa og píanó eftir Mendelssohn. Tónlist hans var mun áheyrilegri, laglínurnar grípandi og framvindan spennandi. Í heild var flutningurinn þéttur og fókuseraður, fullur af snerpu og dirfsku. Stundum voru þó feilnótur í sumum strengjahljóðfærum áberandi, og pedallinn í píanóinu var all rausnarlegur sem fyrr. Maður gat því aldrei almennilega gefið sig tónlistinni á vald, því miður.

Niðurstaða:

Misáhugaverð dagskrá og flutningurinn var ekki án hnökra þó hann hafi yfirleitt verið ágætur.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s