Í Mordor sem magnar skugga sveim

5 stjörnur

Kvikmyndatónleikar

Fellowship of the Ring. Tónlist eftir Howard Shore. Flytjendur: Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Hljómeyki, Söngsveitin Fílharmónía. Einsöngvarar: Kaitlyn Lusk og Bjartur Clausen. Stjórnandi: Ludwik Wicki.

Eldborg í Hörpu

sunnudaginn 27. ágúst

Ég hef lesið Hringadróttinsögu 15 sinnum og ekki er ólíklegt að ég hafi séð myndirnar álíka oft. En bíótónleikarnir í Eldborg í Hörpu á sunnudagskvöldið buðu upp á alveg nýja vídd. Þar var fyrsta myndin í þríleiknum sýnd við lifandi tónlistarflutning. Talið og tónlistin voru ekki í réttum styrkleikahlutföllum, stundum heyrðist það fyrrnefnda ekkert sérstaklega vel. En þetta var ekki eiginlega bíósýning; myndin var aukreitis, meira til að setja tónlistina í rétt samhengi en eitthvað annað.

Tónlistin, sem er eftir Howard Shore, er stórfengleg og á drjúgan þátt í stemningunni í myndunum. Hún þarf auðvitað að vera hárrétt tímasett, ekki síst í bardagasenum þar sem atburðarásin er hröð. Að stjórna hljómsveit og kór undir slíkum kringumstæðum er vandasamt, en þó ekki eins snúið og ætla mætti. Hljómsveitarstjórinn, Ludwik Wicki, var með stjóra spjaldtölvu fyrir ofan nótnabókina, en þar sá hann myndina ásamt ýmsum merkjum. Stundum blikkaði ljós, það var svokallað click track, stafrænn taktmælir til að Wicki stjórnaði í réttum hraða. Græn lína sem sveif yfir skjáin gaf til kynna að næsta tónlistaratriði væri senn að hefjast. Það var því engin áhætta, hljómsveitarstjórinn þurfti ekki að beita sjötta skilningarvitinu til að allt kæmi heim og saman. Hann átti bara að fylgja bendingunum í spjaldtölvunni, sem hann gerði reyndar óaðfinnanlega.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands lék af aðdáunarverðri fagmennsku. Gaman var að heyra túbuleikinn, sem var miklu meira áberandi en venjulega. Ég hef séð flutning á sinfóníu þar sem túbuleikarinn situr geispandi þar til rétt í lokin að hann fær að blása í hljóðfærið. Hér var túbuleikarinn nánast eins og einleikari. Básúnurnar voru líka öflugar að ógleymdum fallegum tréblæstri í upphafi myndarinnar. Strengirnir voru sömuleiðis unaðslega breiðir og djúsí, eins og t.d. í senunni við hliðið í Moría; hvílík fegurð! Svo má ekki gleyma mögnuðu slagverkinu.

Tveir kórar voru á sviðinu, Fílharmónía og Hljómeyki. Kórsöngurinn er mjög fyrir ferðarmikill í myndinni og þar má ekkert klikka. Kórarnir voru frábærir, senurnar með álfunum voru dásamlegar, bæði þegar Arwen birtist fyrst, og ekki síður í Lothlorien hjá skógarálfunum. Maður hreinlega fékk gæsahúð. Einsöngurinn var svo í höndunum á Kaitlyn Lusk og var hann hástemmdur, tilfinngaþrunginn og fagur. Bjartur Clausen, 11 ára drengur, stóð sig líka prýðilega.

Þetta var skemmtileg stund, enda spruttu áhorfendur á fætur í lokin og æptu; fagnaðarlætin voru gríðarleg. Vonandi verða hinar tvær myndirnar sýndar á sama hátt í náinni framtíð.

Niðurstaða:

Stórkostlegir tónleikar með frábærri tónlist og glæsilegum flutningi.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s