Sumt stórbrotið, annað ósannfærandi

3 stjörnur

Kammertónleikar

Verk eftir Bartók, Beethoven, de Sarasate og de Falla. Páll Palomares lék á fiðlu, Eva Þyri Hilmarsdóttir lék á píanó.

Salurinn í Kópavogi

sunnudaginn 12. nóvember

Færir hljóðfæraleikarar falla gjarnan í þá gryfju að æfa ekki nóg hæg lög sem þeir hyggjast leika á tónleikum. Hægir kaflar eru jú auðveldari, svo flestum stundum er varið í að undirbúa þá hraðari og erfiðari. En það hæga krefst líka yfirlegu, listamaðurinn verður að melta þannig tónlist almennilega ef hann ætlar að hrífa áheyrendur með henni.

Mér fannst ég greina þennan feil á tónleikum í Salnum í Kópavogi á sunnudagskvöldið. Þar lék Páll Palomares fiðluleikari m.a. Playera op. 23 og Romanza andaluza op. 22 eftir Pablo de Sarasate. Þetta eru rómantísk, en látlaus lög. Ef maður kann á annað borð á fiðlu þarf ekkert að æfa lögin, það er hægt að spila þau beint af blaðinu. En lögin virkuðu ekki, sumir tónar voru örlítið óhreinir og túlkunin var kynlega áhugalaus. Samt er þetta hrífandi tónlist með himneskum laglínum.

Rúmenskir dansar eftir Bartók voru hins vegar magnaðir, þrungnir viðeigandi tilfinningum. Eva Þyri Hilmarsdóttir lék á píanó með Páli og gerði það af fegurð og innileika, en rödd píanósins var þó heldur sterk. Á tónleikum fiðlu- og píanóleikara eru hljóðfærin yfirleitt jafn „mikilvæg“ en svo er ekki um þessa dansa Bartóks. Þar er fiðlan í einleikshlutverki, píanóið fylgir. Í dönsunum var nánast eins og hljóðfæraleikararnir væru í samkeppni.

Sónata í c-moll op. 30 nr. 2 eftir Beethoven var meira sannfærandi, þrátt fyrir smá slys, sem rekja mátti til mistaka aðstoðarkonu píanóleikarans, flettarans, snemma í verkinu. Sem betur fer kom það ekki að sök. Hér standa hljóðfærin tvö jafnfætis, sennilega er píanóið í stærri rullunni. Leikur Evu Þyriar var stórbrotinn og skapmikill, auk þess sem tæknileg atriði voru á hreinu. Hröð tónahlaup voru bæði skýr og örugg. Túlkun Páls var sömuleiðis kröftug og lifandi og samspilið var nákvæmt. Hvergi var dauður punktur.

Á efnisskránni var líka svíta af spænskum alþýðulögum (Suite populare españole) eftir Manuel de Falla. Einstaka fiðlutónar hefðu mátt vera fókuseraðri og túlkunin ástríðufyllri. Það var eins og tónlistin væri alltaf í einhverri fjarlægð, hún virtist ekki koma fiðluleikaranum við. Sumt tæknilegt  var engu að síður flott, hratt spil var pottþétt og auðheyrt að Páll er framúrskarandi fiðluleikari. Eva Þyri fylgdi með ágætum, leikur hennar var blæbrigðaríkur, og snarpur þegar við átti.

Caprice Basque (basknesk gletta) eftir fyrrnefndan  de Sarasate var lokaatriði tónleikanna, og var það gætt glæsilegum tilþrifum, sem sýndu vel tækni fiðluleikarans. Í uppklappinu var svo portúgalska sigurlagið í síðustu Eurovisonkeppninni, vissulega hægt, en var samt sem áður forkunnarfagurt í höndum hljóðfæraleikaranna. Greinilegt var að þau halda mikið upp á lagið og lögðu ríkulega alúð í flutning þess. Annað rólegt á dagskránni verðskuldaði sömu meðferð.

Niðurstaða:

Mjög færir hljóðfæraleikarar í sjálfu sér, en túlkunin var ekki alltaf sannfærandi.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s