Sjö stjörnu djass og endurreisnartónlist

5 stjörnur

Jan Lundgren: Magnum Mysterium ásamt öðru eftir ólíka höfunda. Flytjendur: Jan Lundgren, Backenroth, Sigríður Thorlacius og Barbörukórinn.

Norðurljós í Hörpu

þriðjudagurinn 5. desember

Á vissan hátt er djassinn eins og búddisminn. Sá síðarnefndi hefur breiðst um heiminn og hefur þann einstaka karakter að geta lagað sig að þankagangi mismunandi landsvæða, hvort sem það er tíbetsk náttúrutrú eða evrópsk sálfræði. Djassinn hefur líka þennan sveigjanleika, þar eru margar stefnur og nálganir. Til er einfaldur, gamaldags djass sem er í fremur föstu formi, og svo er hinn svokallaði frjálsi djass, framúrstefna sem getur verið afar djörf.

Djassinn er því mjög víðfeðmur og það sannaðist eftirminnilega á tónleikum í Norðurljósum á þriðjudagskvöldið. Þar kom fram einn fremsti djasspíanóleikari heims, Jan Lundgren. Hann bauð upp á furðulegan kokteil af djassi og endurreisnartónlist, sem við fyrstu sýn eiga ekkert sameiginlegt. Djassinn er frjáls en endurreisnartónlistin formföst, auk þess sem hljómagangurinn og tónaraðirnar sem liggja til grundvallar eru allt öðruvísi. En Lundgren fléttaði þetta tvennt saman á svo áhrifaríkan hátt að maður var sem dáleiddur allan tímann, þrátt fyrir að tónleikarnir væru óvanalega langir.

Rétt eins og búddísk trúariðkun var dagskráin hugleiðslukennd. Meginuppistaðan var tónlist eftir meistara á borð við Claudio Monteverdi og William Byrd, en einnig hljómuðu gömul jólalög og sálmar, og svo lög eftir Lundgren og fleiri. Langflest voru þau í rólegri kantinum en efnisskráin var samt ekki svæfandi. Leikurinn og söngurinn var einfaldlega það blæbrigðaríkur og fágaður að maður fór upp í algleymisástand aftur og aftur.

Meginuppistaða dagskrárinnar var samtíningur laga eftir Monteverdi, Gabrieli, Gaffurio, Morales, Byrd og de Victoria. Svipað samansafn kom  út í djassútgáfu Lundgrens á plötu fyrir tíu árum síðan undir nafninu Magnum Mysterium. Útsetningar hans þar og hér voru lágstemmdar og fallegar, það var aldrei togstreita á milli þessara ólíku tónlistarstefna. Þvert á móti skapaði djassinn fallega umgjörð utan um tímalausa endurreisnartónlistina og lyfti henni upp í hæstu hæðir.

Blanda af gamalli tónlist og djassi er auðvitað ekki ný af nálinni. Saxófónleikarinn Jan Garbarek tefldi fram slíkum andstæðum á víðfrægri plötu sem kom út löngu á undan Magnum Mysterium. En þar djassaði Garbarek við óbreytta kórtónlist úr forneskju; hér hins vegar rann þetta tvennt miklu betur saman. Lundgren og félagi hans, kontrabassaleikarinn Hans Backenroth, léku ekki aðeins af fingrum fram á völdum stöðum. Þeir tóku líka þátt í flutningnum á upprunalegu tónlistinni með hófsömum útfærslum og þægilegu undirspili.

Frammistaðan á tónleikunum var í einu orði sagt frábær. Sigríður Thorlacius var í banastuði í nokkrum lögum, söngur hennar var tilfinningaþrunginn en viðkvæmur, tær og seiðandi. Barbörukórinn undir stjórn Guðmundar Sigurðssonar var unaðslegur áheyrnar, samhljómurinn þéttur og túlkunin ávallt þrungin einlægni. Hvílíkur söngur! Einsöngur kórfélagans Rakelar Eddu Guðmundsdóttur var jafnframt í fremstu röð, ákaflega fallegur og hrífandi. Bassaleikur Backenroths var flottur og fullur af spennandi töfrabrögðum. Leikur Lundgrens sjálfs var dásamlegur; mjúkur hljómur flygilsins var ætíð fullkomlega mótaður. Hraðar tónarunur voru áreynslulausar, stemningin grípandi. Djassararnir og kórinn voru auk þess ótrúlega samtaka. Þessir tónleikar fengju sjö stjörnur ef hægt væri; það verður ekki betra.

Niðurstaða:

Tónleikar ársins! Algerlega stórkostleg dagskrá með himneskri tónlist og snilldarlegum flutningi.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s