4 stjörnur
Djasstónleikar
Kvartett Andrésar Þórs Gunnlaugssonar (Scott McLemore, Þorgrímur Jónsson og Agnar Már Magnússon) flutti tónlist eftir Andrés Þór.
Björtuloft í Hörpu
miðvikudaginn 7. febrúar
Eitt best geymda leyndarmál Hörpu er djassklúbburinn Múlinn. Ég segi leyndarmál vegna þess að á tónleikum klúbbsins á miðvikudagskvöldið í Björtuloftum í Hörpu var varla sála, innan við tuttugu manns. Ljóst er að þeir sem heima sátu misstu af miklu.
Djassklúbburinn heitir eftir Jóni Múla Árnasyni, einum helsta djassgeggjara landsins fyrr og síðar. Hann var vissulega þekktastur fyrir að vera þulur á Ríkisútvarpinu, en samdi líka lög og var menntaður trompetleikari. Á útvarpinu var hann með vinsælan djassþátt og skrifaði auk þess ágæta bók um sögu djassins. Við hæfi er því að nefna klúbbinn eftir honum.
Þarna á miðvikudagskvöldum koma fram alls konar djassarar og oft hafa tónleikar klúbbsins verið flottir. Að þessu sinni tróð Kvartett Andrésar Þórs Gunnlaugssonar gítarleikara upp og flutti ný lög eftir hann sjálfan. Félagar hans voru Scott McLemore á trommur, Þorgrímur Jónsson á kontrabassa og Agnar Már Magnússon á píanó.
Lögin sem slík voru ágæt, þótt melódíur hafi sjaldnast verið sérlega grípandi. Aðal undantekninginn var lagið Avi, sem mun hafa verið innblásið af verkum ísraelska mandólínleikarans Avi Avital. Lagið minnti dálítið á Sveitina milli sanda, þá dásamlegu tónsmíð Magnúsar Blöndal Jóhannssonar.
Galdurinn á tónleikunum fólst í útsetningunum og spilamennskunni. Hún var í fremstu röð. Andrés lék á rafgítar ýmiss konar tónarunur af gríðarlegri innlifun og miklu hyggjuviti. Þorgrímur var líka hinn fimasti á bassann, samspil hans við gítarinn var ávallt skemmtilegt og spennandi. Píanóleikur Agnars myndaði áhrifaríkt mótvægi. Hann einkenndist af ljóðrænni mýkt sem skapaði draumkennda stemningu í völdum köflum. Hinn óviðjafnanlegi Scott McLemore olli svo ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Trommuleikur hans var ótrúlega fjölbreyttur og blæbrigðaríkur, og fullkomnaði heildina.
Heildarsvipurinn var einmitt það, fullkominn. Hann var svo breiður og margvíslegur að aðdáunarvert var. Framvindan kom stöðugt á óvart.
Notalegt er að sitja í Björtuloftum í Hörpu, sem eru á fimmtu hæð. Útsýnið yfir höfnina er stórfenglegt. Lýsingin í rýminu var þó ekki til fyrirmyndar þarna um kvöldið. Tveimur sterkum ljóskösturum var beint að sviðinu, en þar sem veggurinn fyrir aftan er úr gleri, endurspeglaðist ljósið í augun á manni. Það var ekki þægilegt. Vonandi verður þetta lagfært fyrir næstu tónleika.
Niðurstaða:
Framúrskarandi spilamennska og skemmtileg tónlist á fyrstu tónleikum vordagskrár Múlans.