Frá þremur hljómum upp í þúsund

4 stjörnur

Djasstónleikar

Stórsveit Reykjavíkur flutti nýja íslenska tónlist.

Silfurberg í Hörpu

sunnudaginn 13. maí

Djass er ekki bara djass, heldur greinist hann í þrjár megingerðir og um fjörutíu undirgerðir, sumar þeirra töluvert ólíkar. Á árlegum vortónleikum Stórsveitar Reykjavíkur í Silfurbergi í Hörpu upplifði maður að nokkru þessa skemmtilegu fjölbreytni. Þar mátti heyra fleiri en eina stíltegund, meira að segja blús.

Blúsinn er reyndar alveg sjálfstætt tónlistarform, þótt sterkar tengingar séu við djassinn. Einu sinni var munurinn á djassi og blús skilgreindur svona: Blússpilarinn leikur þrjá hljóma fyrir þúsund áheyrendur, en djassarinn spilar þúsund hljóma fyrir þrjá áheyrendur. Þetta er einföldun, en það er sannleikskorn henni. Djassinn er svo miklu víðfeðmari og fyrir bragðið torskildari. Blúsinn sem hér heyrðist var reyndar mjög djassskotinn og var eftir Eirík Rafn Stefánsson. Tónlistin var djörf og skemmtilega flippuð; sólóin leiftrandi fjör. Útkoman var stórfengleg.

Öll músíkin á efnisskránni var frumflutt eins og vaninn er á vortónleikum Stórsveitarinnar. Djasspíanistinn knái, Agnar Már Magnússon, átti tvö lög. Hann tók þó ekki sjálfur þátt í flutningnum, heldur var það Kjartan Valdemarsson, annar frábær píanisti, sem sá um píanórulluna. Lög Agnars voru margbrotin. Þau einkenndust af skýrt afmörkuðum flötum, svellandi málmblástursleik, ísmeygilegum píanókafla, áleitnu slagverki og vímukenndum saxófónleik. Hver kafli kallaði fram sinn galdur, melódíurnar voru grípandi og heildin mögnuð.

Lögin eftir Hauk Gröndal voru allt öðru vísi, en ekkert síðri. Það fyrra, Ecko, var ákaflega kliðmjúkt, með margbrotnum, litríkum tónahendingum og fíngerðum rytma. Hið síðara, The White Tower, byrjaði á seiðandi trommuleik sem lá undir dempuðu brassi. Von bráðar hurfu dempararnir og tónlistin reis upp í tignarlegan hápunkt. Þar blésu spilararnir sem mest þeir máttu. Það var afar áhrifamikið.

Sigurður Flosason átti líka atriði á tónleikunum sem var sérlega heillandi. Sigurður spilaði sóló; saxófónninn hans og slagverksleikur Jóhanns Hjörleifssonar voru í raun burðarás tónlistarinnar. Kjartan píanóleikari hristi þó síðar glæsilegan einleikskafla fram úr erminni og Jóhann tók sömuleiðis flott sóló. Músíkin í heild var spennandi, ögn þráhyggjukennd, en á góðan máta.

Lag eftir Kjartan Valdimarsson var jafnframt á dagskránni. Það var einkar fallegt. Einskonar film noir stemning sveif yfir vötnunum. Stefin voru hrífandi og nostalgískt flygilhorn á einum tímapunkti fullkomnaði töfrana. Fyrir þá sem ekki vita svipar flygilhornið útlitslega til trompetsins, en er aðeins stærri og hljómurinn mýkri.

Snorri Sigurðarson stjórnaði hljómsveitinni og gerði það af léttleika og öryggi, auk þess sem hann kynnti dagskrána á afslappaðan hátt. Heildarhljómurinn var fagurlega mótaður og í fullkomnu styrkleikajafvægi. Samspilið var nákvæmt og leikstíllinn snarpur; stuð var alltaf í fyrirrúmi. Þetta voru glæsilegir tónleikar og enn eitt dæmið um þá miklu grósku sem ríkir í djassinum hér á landi, en þar á Stórsveitin drjúgan hlut að máli.

Niðurstaða:

Hvert lag var öðru betra og tónlistarflutninguinn var í fremstu röð.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s