Strengjaleikurinn þurr eins og sandpappír

3 stjörnur

Kammertónleikar

Miller-Porfiris Duo ásamt Ertan Torgul, Jennifer Kloetzel og Svövu Bernharðsdóttur fluttu verk eftir Mozart, Martinu og Janacek.

Kaldalón í Hörpu

þriðjudaginn 7. ágúst

Dúrinn er hress, mollinn dapur. Þetta er einföldun, en ekki langt frá sannleikanum. Ég er á þeirri skoðun að Mozart sé almennt betri í moll en í dúr, hver svo sem ástæðan er. Hvað er fegurra en fertugasta sinfónían í g-moll, d-moll píanókonsertinn eða fiðlu- og píanósónatan í e-moll?

Eitt af þessum hrífandi verkum snillingsins er strengjakvintett í g-moll K 516. Hann er tregafullur og ljóðrænn, stórbrotinn og grípandi, en skilaði sér ekki fyllilega á tónleikum í Kaldalóni í Hörpu á þriðjudagskvöldið. Þar lék Miller-Porfiris dúóið (Anton Miller á fiðlu og Rita Porfiris á víólu). Með þeim var Ertan Torgul fiðluleikari, Jennifer Kloetzel sellóleikari og Svava Bernharðsdóttir víóluleikari. Byrjunin var reyndar prýðileg, túlkunin var stílhrein og kraftmikil. Fyrstu tveir kaflarnir voru snurðulausir, ef frá eru taldir nokkrir tónar úr fyrstu fiðlu, sem löfðu aðeins í hæðinni.

Vandamálið var lítill hljómburður Kaldalóns, sem gerði strengjaleikinn þurran eins og sandpappír. Þetta var sérstaklega bagalegt í hæga kaflanum, þar sem hljóðfæraleikararnir léku með dempara, eins og tónskáldið gaf fyrirmæli um í nótnahandritinu. Dempari er lítið stykki sem sett er á strengina við brúna og dregur aðeins úr hljómnum, svipað og vinstri pedallinn á píanói. Í takmarkaðri endurómun salarins virkaði þetta alls ekki. Hljómurinn í strengjunum var eins og í lélegum hljóðgervli, sem gersamlega drap stemninguna.

Fjörugur, ódempaður lokakaflinn breytti litlu þar um því maður var búinn að missa þráðinn í kaflanum á undan. Þetta er synd, því flutningurinn var á margan hátt góður. Samspilið var nákvæmt og sellóleikurinn var áberandi flottur, djúpur, breiður og ástíðuþrunginn. Verst að það dugði ekki til.

Eftir hlé voru tvö verk, og hið fyrra var dúó nr. 2 H 331 eftir tékkneska tónskáldið Bohuslav Martinu. Þau Miller og Porfiris léku þar af miklum þrótti og glæsileik. Tónlistin sjálf var aftur á móti fráhrindandi, manísk og tryllingsleg. Hún var einskonar músíkútgáfa mannsins sem enginn vill mæta í myrkri. Upplifunin á tónleikunum var í samræmi við það, býsna neikvæð.

Samlandi Martinus , Leon Janacek, átti lokaverkið á tónleikunum. Það var strengjakvartett nr. 2 sem ber yfirskriftina „Náin bréf“. Þar er vísað til bréfasamskipta sem tónskáldið átti á efri árum við sér mun yngri konu. Þau voru þá bæði gift öðrum. Janacek var í ástlausu hjónabandi sem hökti á vananum einum, en bréfasambandið við ungu konuna var tilfinningaríkt, þó það væri alla tíð platónskt. Kvartettinn er ekki besta tónsmíð hans, hann er örvæntingarfullur á óþægilegan hátt og kemst aldrei almennilega á flug. Í lítilli endurómun Kaldalóns var strengleikurinn harðneskjulegur og skerandi, og maður naut hans ekki. Fjórmenningarnir, þeir sem áður hafa verið taldir upp, án Svövu, eru engu að síður flottir hljóðfæraleikarar, en umhverfið spilaði ekki með þeim. Kaldalón er samt fínn salur, en hann hentar betur annarri tónlist en þeirri sem hér var boðið upp á.

Niðurstaða:

Yfirleitt magnaður flutningur, en tónlistin var misjafnlega skemmtileg og hljómburðurinn óheppilegur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s