4 stjörnur
Helguleikur
Höfundur: Kolbeinn Bjarnason
Blaðsíður: 450 síður
Útgefandi: Sæmundur
Þegar farið var að senda loftskeyti í gamla daga birtist frétt í einhverju dagblaðinu þar sem stóð: „Loftskeyti geigaði og drap belju.“ Fólk var álíka tortryggið þegar fyrst fór að heyrast í sembal í tónleikalífinu hér. Semball er hljómborðshljóðfæri og forfaðir píanósins. Það eru strengir í honum, en ekki er slegið á þá með hömrum, heldur eru þeir plokkaðir með sérstökum mekanisma. Hljómurinn er veikur, enda ekki hægt að stjórna styrkleikanum með því að slá misfast á nóturnar. Áferðin er vélræn og hún kemur illa út í samspili við venjuleg nútímahljóðfæri. Þetta fannst fólki vafasamt.
Helga Ingólfsdóttir semballeikari, sem lést fyrir tæpum áratug, lét þó takmarkanir sembalsins ekki aftra sér. Hún barðist fyrir því að hann fengi verðskuldaðan sess í tónleikalífinu. Frá þessu segir í bók sem ber nafnið Helguleikur, saga Helgu Ingólfsdóttur og Sumartónleika í Skálholtskirkju, og er eftir Kolbein Bjarnason. Með bókinni fylgja sex geisladiskar með leik Helgu. Fjallað er um ævistarf hennar, en hún stofnaði téða Sumartónleika, afar veglega og vandaða tónlistarhátíð. Áherslan þar er annars vegar á barokktónlist sautjándu aldarinnar og fyrri hluta þeirra átjándu, og svo nútímaverk sem yfirleitt eru innblásin af trúarlegum, þjóðlegum efnivið.
Fyrsti hluti bókarinnar, tæpar hundrað síður, er um sembalinn sjálfan og vandamálin sem upp koma þegar hljómur hans blandast nútímahljóðfærum. Svar Helgu við því var að hvetja til þess að barokktónlist yrði öll leikin á „upprunaleg“ hljóðfæri. Eftir því sem tónlistin þróaðist frá barokktímanum yfir í rómantík 19. aldarinnar þurftu hljóðfærin meiri hljómstyrk til að hægt væri að túlka þær tilfinnngaólgur sem rómantíkin kallaði á. Farið að var að nota stálstrengi í stað garna í strokhljóðfærunum, flautan var smíðuð úr málmi en ekki tré, o.s.frv. Þessi breyting umturnaði barokktónlistinni, hún varð miklu belgingslegri og missti hinn fínlega karakter sem einkenndi hana. Í slíku umhverfi þar sem einnig var leikið á sembal, drukknaði hann einfaldlega í hljómgnýnum.
Helga var leiðandi afl í því að breyta þessu, og nú er svo komið að maður getur notið barokktónlistar með reglulegu millibili eins og hún var upphaflega hugsuð. Alþjóðlega barokksveitin í Hallgrímskirkju kemur árlega fram með stórvirki barokktímans, en þar er leikið á upprunahljóðfæri. Minni hópar á borð við Nordic Affect hafa auk þess vakið ánægju og gleði undirritaðs oftar en einu sinni. Á slíkum tónleikum er gjarnan leikið á sembal, og hann hljómar miklu betur en ella.
Helguleikur er fróðleg bók. Saga sembalsins á Íslandi og Sumartónleikanna í Skálholti er rakin mjög ítarlega. Lesandinn fær hins vegar nánast ekkert að vita um Helgu sjálfa, hið persónulega um hana mætti segja á einni blaðsíðu – í mesta lagi. Þetta gerir að verkum að stór hluti bókarinnar er nokkuð þurr, en sem fræðibók er hún engu að síður frábær. Farið er í allt sem átti sér stað á tónleikunum í Skálholti í gríðarlegum smáatriðum og þau mega ekki gleymast, því þar voru frumflutt mörg íslensk tónverk. Óneitanlega er bókin skyldueign allra sem hafa áhuga á íslenskri tónlistarsögu.
Niðurstaða:
Vönduð fræðibók um mikilvægan þátt íslenskrar tónlistarsögu.