Áhugaverður en einmannalegur píanódjass

3 og hálf stjarna

Djasstónleikar

Marc Copland lék á píanó tónlist úr ýmsum áttum.

Salurinn í Kópavogi

sunnudaginn 14. október

Ég las einu sinni bók eftir stjórnanda tónlistarskóla. Bókin var leiðarvísir fyrir foreldra sem ætla að senda börnin sín í tónlistarnám. Fjallað var um ólíka persónueiginleika barna og hvernig þeir henta mismunandi hljóðfærum eða hljóðfærategundum. Foreldrar vita það ekkert endilega. Börn eru oftast send í píanónám en píanóið hentar ekki öllum. Píanóið kallar á flóknar hreyfingar og mikla einbeitingu tiltölulega snemma. Og ekki bara það: Barnið þarf að vera einfari í eðli sínu. Ólíkt fjörugum spilurum í lúðrasveitum eða strengjasveitum er píanónemandinn að mestu leyti einn með sjálfum sér.

Mér datt þetta í hug á tónleikum Marcs Copland píanóleikara í Salnum í Kópavogi á sunnudagskvöldið. Hann spilaði einn og tónlistin var angurvær og dálítið sérvitringsleg. Yfirbragð hans var í takt við tónlistina. Hann talaði lágt og var með óhrjálega, brúna hliðartösku sem hann skildi aldrei við sig. Hún var við fætur hans þegar hann spilaði og hann bar hana ætíð með sér er hann fór inn og út af sviðinu. Afhverju var óljóst, því hann tók ekki neitt upp úr henni. Kannski var þetta einhvers konar verndargripur.

Tónlistin sem slík var skemmtileg. Hún var úr ýmsum áttum, en einkennandi fyrir hana yfirleitt var frjótt ímyndunarafl. Djassinn er sjaldnast eitthvert popp sem byggir bara á fáeinum gripum. Þvert á móti eru djasshljómarnir og -skalarnir óteljandi. Copland var greinilega með þá alla á hreinu því hann kom stöðugt á óvart. Stundum var nánast eins og hann væri að spila franskan impressjónisma úr heimi klassískrar tónlistar, framvindan var háþróuð og flókin og fór jafnvel út á ystu nöf. Hann passaði sig samt á að fara ekki fram af; lögin fundu venjulega grípandi einfaldleikann aftur í lokin.

Tæknilega séð var Copland þó ekkert sérstaklega fimur. Hröð tónahlaup og aðrar krúsídúllur voru stirðar. Margir djasspíanóleikarar eru mjög teknískir, eins og t.d. Herbie Hancock og Keith Jarrett. Tækni þeirra gerir þeim kleift að skapa dramatískar andstæður, fara með tónlistina í tilfinningarússíbana þar sem allt verður vitlaust. Ekkert slíkt var uppi á teningnum hér. Tónlistin var gáfuleg en tilfinningalega fjarlæg. Frásögnin var öll á vitræna sviðinu. Þetta gerði upplifunina á köflum nokkuð þurra.

Tónleikarnir voru þeir fyrstu í sérlega spennandi röð sem nefnist Jazz í Salnum. Þar verður boðið upp á einleiksdjasstónleika, sem eru afar sjaldgæfir hér á landi. Venjulega spilar fólk saman þegar djass er á boðstólum, allt frá djasstríóum upp í stórsveit. Tónleikaröðin í Salnum er því frábær nýbreytni í tónlistarlífinu á Íslandi og framhaldið er svo sannarlega tilhlökkunarefni.

Niðurstaða:

Flott tónleikaröð, tónleikarnir sjálfir voru athyglisverðir en skortu tilfinningalega breidd.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s