Spáð í vetrardagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Tónlistarfólk dreymir oft martraðir sem tengjast því að koma fram fyrir áheyrendur. Dæmigert er að viðkomandi frétti að hann eigi að spila á tónleikum næsta dag, allsendis óundirbúinn. Vladimir Ashkenazy dreymdi einu sinni slíkan draum. Hann gekk hann fram á sviðið til að spila einleikinn í þriðja píanókonsertinum eftir Rakhmanínoff. Þá uppgötvaði hann sér til skelfingar að hljómborð flygilsins var lóðrétt.

Konsertinn er engin smásmíði. Hann er gríðarlega erfiður í flutningi. Heljarstökkin eftir hljómborðinu eru ekki á hvers manns færi. Verkið verður á dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands í mars og einleikari verður píanósnillingurinn Olga Kern.

Kern hefur komið til Íslands áður, fyrst aðeins barn að aldri. Þá var hún í hópi af efnilegu tónlistarfólki frá Sovétríkjunum sálugu. Hún vakti þar athygli fyrir mikla tónlistarhæfileika og þó sérstaklega hvernig hún fletti nótnabókinni. Í stað þess að fletta eins og maður gerir venjulega, setti hún allan lófann á blaðsíðuna miðja og snaraði henni til hliðar. Einhverjir innlendir tónlistarmenn reyndu þetta á eigin nótnabókum þegar heim var komið, og eyðilögðu þær.

Kern er nú með virtustu píanóleikurum samtímans og vekur ávallt lukku fyrir magnaða frammistöðu. Hún spilaði t.d. með glæsibrag annan píanókonsertinn eftir Rakhmanínoff með Sinfóníunni fyrir allnokkru síðan. Tónleikar hennar í mars næstkomandi eru því tilhlökkunarefni.

Fyrir vinstri hönd eingöngu

Sjálfsagt er ekkert grín að spila á lóðrétt hljómborð. En það er heldur ekkert gamanmál að missa útlim, hvað þá fyrir píanóleikara. Þetta kom fyrir Paul Wittgenstein, sem missti hægri handleginn í fyrri heimsstyrjöldinni.

Flestir myndu leggja árar í bát við slíkar kringumstæður, en ekki Wittgenstein. Hann fékk tónskáld til að semja verk fyrir sig. Þar standa upp úr tveir píanókonsertar eftir öndvegistónskáld, þau Ravel og Prókofíev.

Í þessum tónsmíðum er nánast ógjörningur fyrir venjulegan leikmann að heyra að aðeins sé leikið með annarri hendinni. Hægri pedallinn er notaður ríkulega til að tengja saman nótur og hljóma, og vinstri hendin fer út um allt hljómborð, oft á ógnarhraða.

Að þessu sinni fáum við að heyra konsertinn eftir Ravel um miðjan september. Áhugasamir eru hvattir til að sjá undrið frekar en að hlusta bara á það í útvarpinu. Það er Jean-Efflam Bavouzet sem leikur einleik. Hann spilaði hinn konsertinn eftir Ravel, í það skipti fyrir báðar hendur, með Sinfóníunni fyrir ekki löngu síðan. Það kom vel út.

Draumfagrar laglínur

Fleiri píanókonsertar eru á dagskrá hljómsveitarinnar í vetur. Sérstaka athygli vekur annar konsertinn eftir Brahms. Hann verður á dagskrá í október og er óvanalega viðamikill, í rauninni eins og heil sinfónía. Tónlistin skartar draumfögrum laglínum og stórkostlegum hápunktum sem framkalla gæsahúð ef vel er gert.

Einleikari verður Stephen Hough, en hann er frábær píanisti sem ávallt nálgast viðfangsefni sitt af frumleika og skáldskap. Undirrituðum er enn í fersku minni túlkun hans á Rapsódíunni eftir Rakhmanínoff. Hún var svo óvanaleg og jafnframt svo sannfærandi að það var eins og að heyra þessa útjöskuðu tónsmíð í fyrsta sinn.

Fiðlukonsert eftir leikhústónskáld

Annar forvitnilegur einleikskonsert er fyrir fiðlu og eftir Kurt Weill. Hann verður fluttur af Erin Keefe í mars. Fæstir þekkja tónsmíðina, sem er þó skemmtileg, enda er Weill fyrst og fremst kunnur fyrir leikhústónlist sína.

Einnig má nefna fiðlukonsertinn Offertorium eftir Sofiu Gubaidulina í meðförum Vadim Gluzman aðeins síðar. Tónlist hennar er reyndar ekki fyrir hvern sem er. Hún er yfirleitt trúarleg eðlis og gríðarlega alvöruþrungin, gjarnan myrk og drungaleg, en ávallt áhugaverð.

Ekki þessa heims

Það verður draugagangur í föstudagsröðinni á einum tímapunkti, en tónleikarnir eru alltaf klukkan sex á föstudögum. Annar kaflinn í Tónlist fyrir strengi, selestu og slagverk eftir Bartók var notaður á áhrifaríkan hátt í kvikmyndinni The Shining eftir Stanley Kubrik. Þetta er einhver óhugnanlegasta, en jafnframt mest grípandi tónlist sem um getur. Maður bókstaflega sér afturgöngurnar – og þær eru ekki fallegar.

Fleira annarsheimslegt verður á dagskrá Sinfóníunnar í vetur, þ. á m. Aion eftir Ernu Ómarsdottur og Önnu Þorvaldsdóttur. Dansverk Ernu vekja ætíð athygli fyrir kyngi og frumleika, og tónlist Önnu er myrk og seiðandi.

Nýir íslenskir konsertar

Alltaf ber til tíðinda þegar nýr einleikskonsert lítur dagsins ljós. Frumfluttur verður harmóníkukonsert eftir Huga Guðmundsson og konsert fyrir hljómsveit eftir Snorra S. Sigfússon á Myrkum músíkdögum. Konsert fyrir hljómsveit án einleikara þýðir að einleikshlutverkið er í höndum mismunandi hljóðfærahópa hljómsveitarinnar. Gaman verður að heyra konsertana; nýsköpun er mikilvæg ef klassísk tónlist á ekki að staðna.

Ollikainen og Wagner

Sinfónían fagnar 70 ára afmæli þann 9. mars. Á þessum hátíðartónleikum mun Eva Ollikainen stjórna, en hún hefur verið ráðin aðalstjórnandi sveitarinnar frá hausti 2020. Hún er fyrst kvenna til að gegna þessari stöðu. Ollikainen hefur stjórnað hér áður og ávallt staðið sig með sóma. Á tónleikunum verður m.a. flutt fyrsta sinfónía Mahlers, sem er full af hrífandi náttúrustemningu.

Loks verður að nefna uppfærslu Íslensku óperunnar á Valkyrju Wagners í samvinnu við Sinfóníuna í vor, en óperur tónskáldsins eru sjaldséðar hér á landi. Niflunghringurinn var fluttur í mjög styttri mynd á Listahátíð 1994, og löngu síðar var Hollendingurinn fljúgandi settur upp. Núna er komið að Valkyrjunni í heild sinni, sem er annar hluti Niflungahringsins (þeir eru alls fjórir). Valkyrjan er ein stórbrotnasta ópera tónbókmenntanna. Gaman verður að sjá og heyra hvernig til tekst.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s