Sú vinstri æddi um hljómborðið

4 og hálf stjarna

Verk eftir Bizet, Ravel, Debussy, Sibelius og Önnu Þorvaldsdóttur. Stjórnandi: Yan Pascal Tortelier. Einleikari: Jean-Efflam Bavouzet.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 12. september

Flestir píanóleikarar myndu leggja árar í bát við það að missa hægri hendina. Ekki þó Paul Wittgenstein, sem var uppi á fyrri hluta aldarinnar sem leið. Hann hélt ótrauður áfram, pantaði verk fyrir vinstri hendina eina, og flutti þau á tónleikum víða um heim.

Af þessum tónsmíðum ber konsertinn eftir franska tónskáldið Maurice Ravel af. Hann hafði áður samið píanókonsert fyrir tvær hendur, sem er einstaklega skemmtilegur, fágaður og fullur af grípandi laglínum. Konsertinn sem hér um ræðir er myrkari og dramatískari. Mikið gengur á í tónmálinu. Stefin eru einkar lokkandi, bæði þau hvössu og einnig hin mýkri. Framvindan er viðburðarrík og rafmögnuð, og hún skilaði sér fyllilega á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið.

Tærir og pottþéttir

Einleikari var Jean-Efflam Bavouzet, en hann lék einmitt einleikinn hér þegar hinn konsertinn eftir Ravel var fluttur fyrir ekki löngu síðan. Bavouzet var með hægri hendina á lærinu megnið af tímanum, en vinstri hendin æddi um hljómborðið. Í mestu átökunum þurfti hann samt að halda sér í flygilinn með hægri hendinni, annars hefði hann dottið um koll! Túlkun hans var sérlega sannfærandi. Hröðu kaflarnir voru tærir og pottþéttir, hægu stefin þrungin hrífandi nostalgíu, heildarmyndin svo glæsileg að það var alveg einstakt.

Bavouzet lék aukalag sem hann kynnti ekki, en það var fyrsti kaflinn úr Images I eftir Debussy. Hann ber heitið Endurkast á vatni, dásamleg tónlist sem píanóleikarinn spilaði af tæknilegri fullkomnun. Laglínurnar og hljómarnir voru fagulega mótaðir; útkoman var mergjuð náttúrustemning.

Hefur alltaf eitthvað að segja

Þrjú hljómsveitarverk voru einnig á efnisskránni. Yan Pascal Tortelier stjórnaði, en hann er ekki lengur aðalstjórnandi hljómsveitarinnar. Ég verð að segja að ég á eftir að sakna hans. Hann hefur sýnt margoft að hann býr yfir djúpu, listrænu innsæi og hefur alltaf eitthvað að segja með tónlistinni. Svo var einmitt nú. L‘Arlesienne svítan eftir Bizet var gædd innileika og ástúð, en samt stílhrein og yfirveguð. Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur var jafnframt fagurlega mótuð. Og fyrsta sinfónían eftir Sibelius var frábær!

Þetta mikla verk samanstendur af krassandi stefjum, sem tónskáldið vinnur úr á alls konar hátt. Þar eru mörg yndisleg augnablik sem maður óskar sér að vari lengur. Sibelius leyfði sér engan slíkan munað, dýrðarstundirnar brotna fyrr en varir í allskonar útúrdúra, sem eru spennandi í sjálfu sér, en virðast einkennast af ótta, ef ekki skelfingu.

Vildi að tíminn stæði kyrr

Þannig er um annan kaflann, sem er ótrúlega margbrotinn. Allt frá stórfenglegu, einföldu stefi yfir í hraðar, leitandi tónarunur þar sem allt mögulegt á sér stað. Hápunkturinn í lokakaflanum er sömuleiðis yfirgengilegur, þar vildi maður svo sannarlega að tíminn stæði kyrr.

Tortelier náði ávallt að magna upp seiðinn í tónlistinni, og hljómsveitin spilaði af gríðarlegri fagmennsku. Grímur Helgason spilaði afar fallega á klarinettuna í byrjuninni, og hörpuleikur Katie Buckley var glitrandi og nákvæmur. Strengirnir í heild voru hnausþykkir og munúðarfullir, akkúrat eins og þeir áttu að vera. Útkoman var stórbrotin og verður lengi í minnum höfð.

Niðurstaða:

Glæsilegur einleikur, hljómsveitin með allt á hreinu.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s