Djöfullinn sveikst um að mæta

3 stjörnur

Píanótónleikar

Jeremy Denk lék tónlist eftir Bach, Ligeti, Berg og Schumann.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 29. september

Einu sinni var píanóleikari sem var dálítið óheppinn. Hann kom fram á tónleikum í Austurbæjarbíói, á þeim tíma sem bíóið var vinsæll tónleikasalur. Eftir að hafa klárað fyrsta verkið á efnisskránni stóð hann upp og hneigði sig. Svo gekk hann út af sviðinu. Þá vildi svo til að hann fann ekki dyrnar til að fara baksviðs. Dyrnar voru líka hannaðar þannig að það voru engir dyrastafir, hvít hurðin féll fullkomlega að hvítum veggnum. Píanóleikarinn panikkeraði og byrjaði í dauðans ofboði að ýta á vegginn. Loks þegar hann fann hurðina gaf hún eftir og áheyrendur sáu hann bókstaflega fljúga niður stigann hinum megin.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér á tónleikum Jeremys Denk, sem voru haldnir í Norðurljósum í Hörpu á sunnudagskvöldið. Rétt eins og ónefndi píanóleikarinn hér að ofan fann hann ekki hurðina út af sviðinu eftir fyrsta verkið á dagskránni. Dyrnar eru þó ágætlega merktar, en það þurfti samt að benda honum á hurðina. Sem betur fer skall hann ekki á höfuðið.

Eina aðaltónsmíðina vantaði

Í heild voru tónleikarnir dálítið skrýtnir. Ástæðan var sú að ein aðaltónsmíðin á efnisskránni var ekki flutt. Það var Mefistóvalsinn eftir Liszt, sem er með mögnuðustu píanóverkum tónbókmenntanna. Valsinn fjallar um djöfulinn og Fást, og mikla svallveislu sem þeir taka þátt í.

Einkennilegt er að átta sig ekki á því fyrr en á tónleikunum sjálfum að dagskráin er of löng og betra sé að tálga hana til. Manni leið eins og að panta sér dýrindis steik með tilbehör á fínum restauranti og fá ekki steikina, bara meðlætið.

Dirfska og andríki

Hin verkin á efnisskránni voru vissulega prýðilega spiluð. Ensk svíta nr. 2 eftir Bach var lífleg, full af skemmtilegum andstæðum. Flæðið í músíkinni var ávallt spennandi.

Etýður eftir Ligeti voru líka athyglisverðar, þar voru sniðugar hugmyndir sem tónskáldið vann úr af dirfsku og andríki. Denk kynnti etýðurnar og sagði að Ligeti væri frægastur fyrir tónlistina sem var notuð í kvikmyndinni Ódyseifsferð árið 2001. Hann gleymdi þó annarri mynd eftir Kubrik þar sem tónlist Ligetis var áberandi, Eyes Wide Shut. Í Myndinni er einfalt píanóverk eftir Ligeti sem er spilað aftur og aftur, með gríðarlegum áhrifum.

Fagurlega mótað

Eftir hlé spilaði Denk fyrst sónötuna op. 1 eftir Alban Berg sem var gædd réttu tilfinningaólgunni. Og fantasían í C-dúr eftir Schumann rak lestina, stórbrotin tónlist sem Denk spilaði með viðeigandi tilþrifum. Hápunktarnir voru glæsilegir og laglínurnar í heild fagurlega mótaðar, ýmist fallega mjúkar, eða tignarlegar og flottar.

Engu að síður er ekki hægt að gefa tónleikunum fullt hús. Það er einfaldlega ekki í lagi að birta tiltekna tónleikaskrá á heimasíðu Hörpu og svíkjast svo um að spila eitt aðalverkið. Í mínum bókum flokkast það undir einmitt það: Svik.

Niðurstaða:

Tónleikarnir voru fínir sem slíkir, en eitt verkið vantaði og olli það miklum vonbrigðum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s