Grípandi æskuverk í föstudagsröðinni

4 stjörnur

Verk eftir Rakhmaninoff og Gubaidulinu. Flytjendur voru hljóðfæraleikarar úr Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Norðurljós í Hörpu

föstudaginn 17. janúar

Ungverska tónskáldið Györgi Ligeti hélt einu sinni tæplega tíu mínútna langt erindi um framtíð tónlistarinnar. Hann stóð bara í pontunni og sagði ekki neitt, en skrifaði nokkrar fjarstæðukenndar tillögur til áhorfenda. Þetta fór ekki vel í þá, og eftir töluverð háreysti var hann færður burt með valdi.

Með þessum gerningi var Ligeti að lýsa því yfir að framtíð tónlistarinnar er svo óljós að ekki er hægt að segja neitt af viti um hana. Það hefur samt oft verið gert.

Gott dæmi er þegar spáð var í alfræðiriti um tónlist Rakhmaninoffs að hún væri aðeins bóla sem myndi springa og yrði öllum gleymd í náinni framtíð. Þetta var um miðja síðustu öld. Rakhmaninoff hefur þó sjaldan verið vinsælli. Um helgina voru fluttar tvær kammertónsmíðar eftir hann á sitthvorum tónleikunum. Verður hér fjallað um þá fyrri, sem voru haldnir í Norðurljósasalnum í Hörpu á föstudaginn.

Rakhmaninoff og Gubaidulina

Tónleikarnir voru í Föstudagsröðinni svokölluðu, sem er á vegum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Efnisskráin samanstóð af verki Rakhmaninoffs og tónlist eftir Sofiu Gubaidulinu, en þau tvö mynda saman eitt af þemum vetrardagskrár Sinfóníunnar. Tvennir tónleikar verða í viðbót þar sem verk þeirra verða flutt. Að þessu sinni var fókusinn á æskutónsmíðar, sem voru Trio élegiaque nr. 1 eftir Rakhmaninoff og píanókvintett eftir Gubaidulinu.

Sá fyrrnefndi var kornungur þegar hann samdi tríóið, en hann var samt strax búinn að finna rödd sína sem tónskáld. Tónlistin skartar dýrlegum melódíum og töfrakenndum hljómum. Ísmeygileg, grípandi byrjunin umbreytist fljótt í spennandi atburðarrás með ýmsum óvæntum uppákomum og ávallt tignarlegum hápunktum. Tríóið var einstaklega fallega leikið af Nicola Lolli fiðluleikara, Sigurgeiri Agnarssyni sellóleikara og Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur píanóleikara. Strengjaleikurinn var munúðarfullur og tilfinningaþrunginn; píanóleikurinn mjúkur en nákvæmur og alltaf sannfærandi ljóðrænn. Samspilið var pottþétt og heildarhljómurinn flottur.

Fullt af fjöri og húmor

Sömu sögu er að segja um flutninginn á píanókvintettinum eftir Gubaidulinu. Anna Guðný lék á píanó ásamt Sigrúnu Eðvaldsdóttur og Páli Palomares á fiðlur, Gregory Aronovich á víólu og Bryndísi Höllu Gylfadóttur á selló. Leikurinn var í hvívetna tæknilega pottþéttur, fullur af fjöri og húmor, snerpu og skaphita.

Sjálf tónlistin var þó ansi ólík því sem maður á að venjast frá tónskáldinu. Gubaidulina er virk í rússnesku réttrúnaðarkirkjunni, og tónlist hennar fjallar mikið um trúhneigð mannsins og leitinni að sannleikanum. Hún er yfirleitt alvörugefin og sjaldan auðveld áheyrnar. Kvintettinn hér var hins vegar aðgengilegt æskuverk og saminn undir sterkum áhrifum af Prókofíev og Sjostakóvitsj. Léttur, öfgakenndur stíllinn skilaði sér fullkomlega í líflegri spilamennskunni.

Þau Rakhmaninoff og Gubaidulina eru mjög ólík tónskáld og fátt sem þau eiga sameiginlegt. Samt var eitthvað hressandi við að heyra þau svona hlið við hlið og hinir tónleikarnir í þessu þema eru því töluvert tilhlökkunarefni.

Niðurstaða:

Efnisskráin samanstóð af spennandi andstæðum og flutningurinn var ætíð fagmannlegur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s