Leikhústónskáld sýndi á sér aðra hlið

Niðurstaða: Vandaðir og spennandi tónleikar.

Verk eftir Vänskä, Weill og Mendelssohn í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einleikari: Erin Keefe. Stjórnandi: Osmo Vänskä.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 2. febrúar

Sönglögin eftir Kurt Weill eru mörg hver fjarskalega falleg, eins og Youkali, sem er í einskonar tangóstíl og fjallar um útópíu fullkominnar hamingju. Lagið er grípandi, í hefðbundnum stíl dúr- og molltóntegunda. Weill varð þekktastur fyrir leikhústónlist sína, og þar gengur yfirleitt ekki að tónlistin sé of framúrstefnuleg eða flókin.

Við allt annan tón kvað á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið, en þá var fluttur konsert fyrir fiðlu og blásara eftir Weill. Tónmálið var talsvert meira framandi en maður á að venjast, laglínurnar nokkuð ómstríðar og hljómarnir annarlegir. Stemningin var alvarleg og verkið var spennandi áheyrnar. Auðvelt var að detta inn skáldskapinn sem lá þar til grundvallar, og kallaði hann fram alls konar myndir upp í hugann. Framvindan í tónlistinni var lokkandi, sífellt var eitthvað áhugavert á gerast, og litbrigðin margræð og seiðandi.

Safaríkur fiðluleikur

Flutningurinn var líka flottur. Erin Keefe var einleikarinn, og fiðlan hljómaði prýðilega í höndum hennar. Tónarnir voru fallega mótaðir og safaríkir, og samspilið við hljómsveitina var nákvæmt. Konsertinn gerir miklar kröfur til einleikara OG hljómsveitar, og sú síðarnefnda stóðst þær ágætlega. Alls konar fínlegar tónahendingar og hljómar voru snyrtilega útfærðir og stígandin í samspili einleikara og hljomsveitar var þétt og hnitmiðuð.

Stjórnandi hljómsveitarinnar var Osmo Vänskä, sem er okkur Íslendingum að góðu kunnur. Hann stjórnaði einnig verki eftir hann sjálfan, forleik sem var fyrsta atriði efnisskrárinnar. Forleikurinn var skreyttur fjölbreyttum slagverksleik og var saminn, svo vitnað sé í tónleikaskrána, „sem nokkurs konar fylgirödd við fiðlukonsert Kurts Weill…“ án þess að það væri nánar útskýrt eða væri auðheyrt á tónleikunum. Forleikurinn var í öllu falli húmorískur og mjög ólíkur áðurnefndu tónsmíðinni. Stemningin var lífleg og tilvitnunin í fimmtu sinfóníu Beethovens var skondin.

Glæsilegir hápunktar

Síðasta verkið á efnisskránni var sinfónía nr. 3 eftir Mendelssohn. Hún er kölluð „Hin skoska“ og er innblásin af ferðalagið tónskáldsins þar á bæ. Þetta er afskaplega rómantísk tónlist, andrúmsloftið er höfugt, stefin ómþýð og hápunktarnir glæsilegir. Hún ristir þó ekki sérlega djúpt, ekkert frekar en svo margt annað eftir tónskáldið. En hljómsveitin spilaði hana vel, mismunandi hljóðfærahópar voru pottþéttir á sínu og heildarhljómurinn einbeittur og munúðarfullur þegar við átti. Túlkunin var sannfærandi, hið ljóðræna var vel framsett og glæsilegu kaflarnir voru tilkomumiklir. Útkoman var í fremstu röð.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s