Dansarar stálu senunni

Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands 9. janúar. Stjórnandi: Peter Guth.

3 stjörnur

Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru fastur liður í tónleikalífinu. Þeir eru alltaf haldnir í upphafi árs. Um er að ræða einskonar áramótaskaup hljómsveitarinnar. Ég man eftir brandörum þar sem hljóðfæraleikari hefur spilað ógurlega vitlaust og áheyrendur velst um af hlátri. Eða þá að söngkona hefur ráfað inn á sviðið, þóst vera dauðadrukkinn og áreitt fólk.

Kannski eru Vínartónleikarnir orðnir svo margir að brandararnir eru ekki lengur fyndnir. E.t.v. eru þeir bara búnir. Sumir þeirra hafa sannarlega verið ofnotaðir eins og fulla söngkonan – hún er orðin býsna þreytt.

Að þessu sinni var almennt húmorsleysi ráðandi. Vissulega kom eitt og annað fyrir sem var broslegt, en ekki þannig að maður hneggjaði. Samt var stemningin ágæt. Flutt voru ýmis atriði úr óperettum og öðru eftir þá félaga Lehár og Stoltz, Kálmán og Offenbach, og svo auðvitað Straussfeðga. Það var lífleg tónlist sem mátti hafa gaman af. Spilamennskan var kröftug, það var stuð í flutningnum.

Þó var ekki allt gott. Hljómsveitin var á köflum dálítið ósamtaka. Sérstaklega þegar stjórnandinn Peter Guth tók upp fiðlu og spilaði með í stað þess að veifa tónsprota. Það var óttalega tilgangslaust. Megnið af tímanum heyrðist ekkert í fiðlunni. Hún rann saman við leik hinna hljóðfæraleikaranna. Guth hefði alveg eins getað spilað á luftfiðlu. Verra var þó þegar hann lék einleik, því fiðlan var hjáróma, jafnvel fölsk.

Söngurinn var áheyrilegri. Hanna Dóra Sturludóttir söng fallega og af viðeigandi krafti, en hún átti samt ekki heima í dagskránni. Dramatískari hlutverk henta henni betur, eins og Wagner og Mahler, svo ég nefni einhver nöfn. Vínartónlist þarfnast léttleika.

Gissur Páll Gissurarson var ekki heldur maðurinn í þetta hlutverk. Gissur er vissulega magnaður listamaður með einkar hrífandi rödd, en hún er ekki sterk. Hann náði því ekki almennilega að miðla hápunktunum í tónlistinni. Fyrir bragðið vantaði glæsileikann í túlkunina.

Langáhrifamest var þegar tvö pör úr Dansskóla Sigurðar Hákonarsonar gengu inn í salinn og svifu svo um í tilkomumiklum valsi. Þetta voru þau Þorkell Jónsson, Denise Yaghi, Höskuldur Þór Jónsson og Margrét Hörn Jóhannsdóttir. Svo ótrúlegur léttleiki, þokki og fegurð var í dansinum að það stal senunni frá öllu öðru, bæði einsöng og hljóðfæraleik. Dansinn setti tónlistina í samhengi – maður skildi hana miklu betur en ella. Vínartónlist er eitthvað sem á að dansa við, það er ekki nóg að heyra hana. Fólk verður að sjá hana líka, hún á að vera sjónræn upplifun. Því miður voru dansatriðin bara tvö – þau hefðu mátt vera mun fleiri.

Niðurstaða:

Vínartónleikar Sinfóníunnar liðu fyrir ósamtaka hljóðfæraleik, slæman einleik og þungan söng, en tvö dansatriði voru frábær.

One thought on “Dansarar stálu senunni

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s