Efnileg en skortir reynslu

Þórunn Vala Valdimarsdóttir flutti lög eftir ýmsa höfunda í Kaldalóni í Hörpu sunnudaginn 19. janúar.

2 stjörnur

Þórunn Vala Valdimarsdóttir heitir ung söngkona sem kvaddi sér hljóðs á sunnudagskvöldið. Debút-tónleikar söngvara innihalda venjulega píanóleik og svo var einnig nú. Kristinn Örn Kristinsson lék á píanóið, og gerði það af fagmennsku. Hlutverk hans var þó ekki mikið. Meira áberandi var heill strengjakvartett sem spilaði með Þórunni. Það var m.a. í Frauenliebe und -leben (Ástir og líf konu) eftir Robert Schumann. Útsetningarnar voru eftir Wim ten Have og hafa ekki hljómað hér áður.

Það er skemmtilegt að söngvari skuli þora að bjóða upp á nýja útgáfu tónlistar sem heyrist hér í hefðbundinni mynd á hverju ári eftir því sem ég kemst næst. Þessi lög Schumanns eru sungin gríðarlega oft og það er kominn tími til að maður kynnist annarri hlið á þeim.

Þórunn útskrifaðist nýverið frá Tónlistarháskólanum í Utrecht. Eftir því sem ég best veit voru þetta fyrstu sjálfstæðu tónleikarnir hennar. Það er heilmikil þolraun, og sumt verður einfaldlega ekki gott nema með reynslu. Áður en Þórunn söng lög Schumanns flutti hún nokkrar aríur eftir Mozart, Handel, Caccini og Scarlatti. Nemendabragur var á túlkuninni, það vantaði flæðið í skáldskapinn, tæknin vafðist of mikið fyrir. Neðri tónar voru dálítið mattir, þeir efri óþarflega hvassir. Maður saknaði mýktarinnar. Tónlist eftir Mozart og enn eldri tónskáld er gjarnan viðkvæm; kraftur verður að vera í söngnum, en hann þarf líka að vera gæddur hárfínum blæbrigðum. Þórunn hafði kraftinn því hún er afar raddsterk, en fágunina vantaði.

Svipaða sögu er að segja um lögin eftir Schumann. Þau voru lífleg, en ekki nægilega nákvæm. T.d. kom stundum fyrir að Þórunn hitti ekki almennilega á tóna á neðra tónsviðinu ef hún þurfti að hoppa á þá yfir stórt tónbil að ofan. Væntanlega má að einhverju leyti skrifa þetta á taugaóstyrk.

Auðheyrt var þó að Þórunn er heilmikið efni, og hún getur náð langt í sönglistinni með auknum þroska og reynslu.

Gaman var að þessum nýju útsetningum á lögum Schumanns. Það var eitthvað ferskt við þær, umgjörðin var blátt áfram, en samt tilfinningarík. Strengir eru oft notaðir í popptónlist til að auka „tilfinningahitastig“ tónlistarinnar og svipað átti sér stað hér. Þau Gróa Margrét Valdimarsdóttir, Gunnhildur Daðadóttir, Þórarinn Már Baldursson og Júlía Mogensen léku prýðilega, af yfirvegun og þokka, en líka af réttri tilfinningu fyrir stíl hvers lags. Fyrir bragðið var hiti og ákafi í tónlistinni sem maður á ekki að venjast. Það var ánægjulegt.

Niðurstaða:

Þrátt fyrir augljósa hæfileika var nemendabragur á söng Þórunnar Völu Valdimarsdóttur, en nýjar strengjaútsetningar voru áhugaverðar.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s