Magnaðar tónahugleiðslur

525. Gunnar Gunnarsson ásamt ásgeiri Ásgeirssyni og Þorgrími Jónssyni. Útg. Dimma.

5 stjörnur

(birtist í Fréttablaðinu í gær)

525 er ekki sérlega krassandi titill á geisladiski. 666 myndi vekja miklu meiri athygli. En 525 hefur líka merkingu, mun háleitari. Sálmur nr. 525 í sálmabók kirkjunnar er friðarbæn Páls Kolka, Til þín, Drottinn hnatta og heima. Við hana samdi Þorkell Sigurbjörnsson undurfagurt lag. Það er að finna á geisladiski Gunnars Gunnarssonar, sem er m.a. organisti Fríkirkjunnar. Þetta er samt ekki sálmadiskur í venjulegum skilningi. Gunnar hefur áður vakið athygli fyrir óhefðbundnar djassútsetningar á íslenskum sálmum og diskurinn nú er einmitt í þeim anda.

Þarna eru tvö lög úr Hallgrímspassíu Sigurðar Sævarssonar. Ég hef ekki heyrt passíuna sjálfa, en lögin hér hljóma ákaflega fallega. Þau eru þýð og yfir þeim er heillandi ferskleiki. Hið magnaða lag Gunnars Þórðarsonar úr óperunni Ragnheiði, Allt eins og blómstrið eina, kemur líka prýðilega út í útsetningu Gunnars. Lagið er grípandi og útsetningin er látlaus og innhverf. Hún nánast eins og hugleiðsla í stofunni heima eftir að hafa séð óperuna á sviði. Það er mögnuð upplifun.

Aðdáunarvert er hversu Gunnari tekst að gera lögin að sínum, án þess að stela þeim. Lögin eru allskonar, hinn fyrrnefndi sálmur nr. 525, einnig Haustvísur til Máríu eftir Atla Heimi Sveinsson, Hinsta kveðja eftir Sigurð Flosason og fleira. En persónuleiki Gunnars er í þeim öllum. Maður fær nýja sýn á lögin, akkúrat eins og góð útsetning á að framkalla.

Hjóðfæraleikurinn á geisladiskinum er flottur. Gunnar spilar af unaðslegri litfegurð á píanóið, Ásgeir Ásgeirsson er innblásinn á gítarinn og kontrabassaleikur Þorgríms Jónssonar er kvikur og áleitinn. Það gerist varla betra.

Niðurstaða:

Einstaklega heillandi djassútsetningar og flutningur á nokkrum perlum íslenskra sálmatónbókmennta.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s