Eivør Pálsdóttir söng með rytmasveit og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar. Útsetningar: Tróndur Bogason. Norðurljós, Harpa miðvikudaginn 25. febrúar.
3 stjörnur
Hin færeyska Eivør Pálsdóttir á marga aðdáendur hér á landi. Hún er líka frábær söngkona. Það er sjarmerandi þegar hún syngur á Færeysku. Þá fær maður að eiga hlutdeild í menningarstraumum sem sjaldan berast hingað, þrátt fyrir landfræðilega nálægð. Styrkur tónlistar Eivarar er að hún á rætur sínar að rekja til menningararfs Færeyja. Það gerir hana sérstaka; heillandi í framandleik sínum.
Þessi tónlist þarfnast ekki endilega voldugrar framsetningar. Þjóðlagakennd músík virkar gjarnan betur í einfaldri umgjörð. Á plötunni Krákan sem kom út árið 2003 söng Eivør t.d. með lítilli djasssveit. Það var unaðslegt áheyrnar.
Í samanburðinum hljómaði músík Eivarar dálítið belgingsleg á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Norðurljósum í Hörpu á miðvikudagskvöldið. Þar gerðist eins og oft áður, að þegar poppsveit kemur fram með heilli sinfóníu magnast hlutirnir upp úr öllu valdi. Það er ekki alltaf til bóta.
Nú er ég ekkert að agnúast út í tónleikana sem slíka, öðru nær. Hljóðið var oftast aðdáunarvert, gott jafnvægi var á milli topps og bassa. Ólíkar hljóðfæraraddir voru tærar og sköpuðu notalega heildarmynd. Sinfónían lék af nákvæmni.
Mikil endurómun var á söngröddinni. Það var ágætt, en kannski hefði þó minna bergmál verið heppilegra í hinu seiðmagnaða lagi Tröllabundin. Þar söng Eivør um leið og hún barði handtrommu. Lagið er forneskjulegt, það er nánast eins og seiðkona sé að magna upp galdur með söng sínum. Gríðarleg endurómunin var dálítið tilgerðarleg, það gerði lagið nýaldarlegt, sem fór því ekki vel.
Flutningurinn var í fremstu röð. Allur hljóðfæraleikur var til fyrirmyndar, og samspilið var hárnákvæmt. Bæði hjá rytmasveitinni og Sinfóníunni. Söngurinn var jafnframt glæsilegur. Eivør hefur sérdeilis fallega rödd, afar bjarta og hljómmikla. Hún hefur auk þess frábæra tækni. Hver einasti tónn var tandurhreinn og fullkomlega mótaður.
Ekkert af þessu dugði þó alltaf til, því lögin sjálf komu misvel út. Sum þeirra voru vissulega seiðandi fögur. En önnur voru frekar venjuleg, byggðust á síendurteknum hendingum sem voru miður grípandi. Tilvist Sinfóníunnar gaf lögunum svo ákveðinn Hollywood blæ, sem var fremur óaðlaðandi. Auðvitað er ekkert að Hollywood stílnum sem slíkum. En eins og áður hefur komið fram virkar einfaldleikinn betur þegar Eivør er annarsvegar. Hann vantaði hér.
Niðurstaða:
Lög Eivarar voru nokkuð ýkt í meðförum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í útsetningum Trónds Bogasonar. En flutningurinn var magnaður, sérstaklega söngurinn, sem var frábær.